Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandvík brennd, skotin og grafin
Miðvikudagur 10. ágúst 2005 kl. 21:50

Sandvík brennd, skotin og grafin

Sviðin jörð mætti blaðamanni Víkurfrétta þegar hann gerði sér ferð út í Sandvík á tökustað kvikmyndarinnar Flags of Our Fathers. Þeir sem sáu um að gera það voru einnig á tökustað en þeir voru vopnaðir eldvörpum og stórum tank af bensíni. Þeir tóku ekki eftir blaðamanninum vegna eldglæringa og reyks sem steig upp af sviðnu jörðinni.

Forsvarsmenn kvikmyndarinnar á Íslandi, True North, hótuðu blaðamanni Víkurfrétta lögsókn ef ljósmyndir af svæðinu myndu birtast almenningi. Víkurfréttir hafa þó samt ákveðið að birta ljósmyndirnar og geta allir þeir sem vilja sjá umgjörð kvikmyndarinnar smellt á tengil neðst í þessari frétt eða efst á forsíðu vefsins. Fyrirtækið True North hefur þó ekki aðeins hótað Víkurfréttum því hótun barst fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld en þar var einnig ákveðið að birta myndskeið úr ferð blaðamannsins.

Það var þó fleira en sviðin jörð sem mætti blaðamanninum í þessari ferð út í Sandvík en skotgrafir, skýli og ýmsar rústir eru nú á víð á dreif um svæðið. Töluvert af starfsfólki myndarinnar var við vinnu á svæðinu en prófun á ýmsum búnaði þar á meðal skriðdrekum og byssum fór fram í dag. Það er því skiljanlegt að blaðamanni Víkurfrétta hafi brugðið þegar miklir hvellir heyrðust á svæðinu en vanir tæknibrellumenn, sem þar voru staddir, lyftu sér ekki upp við lætin.

Stór hluti svæðisins hefur verið merktur með ýmis konar litlum fánum sem segja til um hvaða hópar leikara eiga að vera á hvaða stað þegar tökur á kvikmyndinni hefjast.

Sandvíkin er farin að líkjast Iwo Jima töluvert en þó virðist einhver vinna eftir á svæðinu og er búist við að starfsmenn myndarinnar starfi þar dag og nótt á næstunni en æfingatökur á kvikmyndinni eiga að hefjast á morgun. Forsvarsmenn kvikmyndarinnar á Íslandi segja svæðið lokað almenningi en lítil sem engin gæsla er á svæðinu fyrir utan tvo starfsmenn íslensks öryggisfyrirtækis sem gæta veganna þar að. Göngugarpar og annað útivistarfólk getur því auðveldlega litið á umgjörð kvikmyndarinnar enda töluvert af gönguleiðum að svæðinu. Það þykir þó líklegt að gæsla svæðisins margfölduð eftir heimsókn blaðamanns Víkurfrétta.

Íslendingar sem leika í kvikmyndinni eru orðnir reiðubúnir og farnir að líkjast töluvert þeim herskara sem gekk á strendur Iwo Jima en síðasti leikarahópurinn fór í klippingu í dag. Töluvert margir Suðurnesjamenn taka þátt í þessu verkefni og segja þeir flestir að starfið sé spennandi en einhverjir hafa þó hætt við eftir að fjallað var um starfssamninga sem við þá voru gerðir.

Clint Eastwood og félagar gert samning við Landgræðslu Ríkisins vegna uppgræðslu á svæðinu eftir tökur en hann hljóðar upp á rúmar tíu milljónir króna. Ekki er vitað hvað uppgræðsla á svæðinu tekur langan tíma en þó er ljóst að mikið verk verður fyrir höndum ef skila á Sandvíkinni í því ástandi sem hún var í áður en Hollywood settist þar að.

Það þarf þá vonandi ekki að óttast að kvikmyndagerðamennirnir svíki loforð um skil á svæðinu þar sem samningur liggur fyrir. Ekki vanda sig þó allir við að skila svæðum sem notuð eru undir kvikmyndir en Baltasar Kormákur og félagar sem stóðu að gerð kvikmyndarinnar A Little Trip To Heaven hafa ekki enn gengið frá rafmagnsstaurum sem settir voru upp við Sandgerðisveg en töluvert langt er síðan að tökum lauk á kvikmyndinni.

En Hollywood nýtir sér þó ekki aðeins Suðurnesin því Suðurnesin nýta sér einnig Hollywood. Tugir Suðurnesjamanna hafa fengið starf við kvikmyndina við hin ýmsu verk og hafa nokkur fyrirtæki hér fengið bæði stór og lítil verkefni við t.d. viðgerðir og undirbúning. Það er því ekki aðeins Clint Eastwood og Steven Spielberg sem hala inn peninga vegna kvikmyndarinnar því Jón og Jóna á Suðurnesjum njóta einnig góðs af innrás Bandaríkjamanna á Iwo Jima árið 1945.

MYNDIR FRÁ FERÐ BLAÐAMANNSINS ER HÆGT AÐ NÁLGAST HÉR

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024