Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 22. mars 2000 kl. 14:26

Sandgerðismær sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Katrín Pétursdóttir úr Grunnskóla Sandgerðis sigraði í stóru upplestarkeppninni sem lauk í Ytri-Njarðvíkurkirkju sl. fimmtudag. Fjórtán nemendur úr 7. bekkjum í fjórum skólum á Suðurnesjum kepptu í úrslitum, úr Heiðarskóla, Grunnskóla Sandgerðis, Holtaskóla og Njarðvíkurskóla. Valgerður Björk Pálsdóttir úr Heiðarskóla varð í 2. sæti og Haraldur Haraldsson úr Holtaskóla í 3. sæti. Stóra upplestrarkeppnin er samstarfsverkefni Samtaka heimilis og skóla, íslenskrar málnefndar, íslenska lestarfélagsins, Kennarasambands Íslands og samtaka móðurmálskennara. Dómnefnd skipuðu Guðbjörg M. Sveinsdóttir frá Skólamálaskrifstofu Reykjanesbæjar, Ingibjörg Einarsdóttir og Þórður Helgason en þau tvö eru frá undirbúningsnefnd verkefnisins. Í úrslitakeppninni komu krakkarnir þrisvar fram. Þau lásu sögubrot úr Þjóðsögum, ljóð eftir íslenskan höfund og loks ljóð að eigin vali. Dómnefnd fékk erfitt verkefni því lestur krakkanna var mjög góður en dæmt var eftir framburði, lestri og hversu skýrmælt þau voru. Í úrslitakeppninni stigu ungir nemendur fram á svið með tónlistaratriði og léku þær Bryndís Hjálmarsdóttir og Kamilla Sigurðardóttir á píanó og fiðlu. Trompkvartett skipaður þeim Önnu Andrésdóttur, Árný Ösp Arnardóttur, Hörpu Jóhannsdóttur og Júlíusi Péturssyni undir stjórn Karenar Sturlaugsson kom einnig fram. Keppendurnir fjórtán í úrslitunum voru þessir: Arnar Stefánsson, Edda Rós Skúladóttir, Guðmundur Benjamínsson, Haraldur Haraldsson, Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir, Íris Stella Heiðarsdóttir, Katrín Pétursdóttir, Lilja Karen Steinþórsdóttir, Ólafur Jón Jónsson, Stefanía Helga Stefánsdóttir, Svava Thordersen, Sveinbjörg Sævarsdóttir, Sveinn Þórhallsson og Valgerður Björk Pálsdóttir. Styrktaraðilar keppninnar voru Mál og menning, Mjólkursamsalan, Samkaup og Sparisjóðurinn í Keflavík. Verðlaunahafar fengu m.a. 5 til 15 þús. krónur frá Sparisjóðnum í Keflavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024