Sandgerðisbær og verkalýðsfélagið semja um heilsurækt
Atvinnuleysi hér á landi hefur stóraukist undanfarið vegna erfiðs efnahagsástands. Að mati Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis og Sandgerðisbæjar eru það ótvíræðir hagsmunir einstaklinganna og bæjarfélagsins alls að atvinnuleitendum sé gefinn kostur á að rækta líkamlegt og andlegt atgervi. Færðar hafa verið sönnur á að regluleg hreyfing sé mikilvæg undirstaða heilbrigðis.
Vegna þessara aðstæðna gera Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Sandgerðisbær með sér eftirfarandi rammasamning til að styrkja einstaklinga í atvinnuleit til að geta stundað heilsurækt. Samningur þessi gildir til og með 31.12.2009.
Stéttarfélög í Sandgerðisbæ og utan sem gerast aðilar að samningi þessum styrkja félagsmenn sína sem misst hafa vinnuna og eru atvinnulausir um kr. 2.000,- að lágmarki á mánuði til að stunda heilsurækt. Íþróttamiðstöð Sandgerðisbæjar veitir þessum viðskiptavinum 50% afslátt á greiðslu af mánaðarkortum í þreksal Íþróttamiðstöðvarinnar.
Til að njóta þeirra kjara sem samningurinn kveður á um skila atvinnuleitendur inn umsókn á skrifstofu stéttarfélags síns, auk staðfestingar á atvinnuleysi. Stéttarfélag sendir Íþróttamiðstöð Sandgerðis í framhaldinu staðfestingu á því að það greiði þátttökugjald fyrir viðkomandi viðskiptavin. sandgerðisbær sendir viðkomandi stéttarfélagi reikning mánaðarlega vegna þeirra viðskiptavina sem samningurinn nær til.
Samhliða samningi þessu mun Sandgerðisbær staðfesta þáttöku sína með yfirlýsingu til viðkomandi stéttarfélaga, þar sem jafnframt er gerð grein fyrir því verði sem bærinn býður. Jafnframt kemur þar fram hvaða takmörkunum aðgangur kann að vera háður.
Sandgerðisbær mun senda þessa yfirlýsingu á skrifstofur viðkomandi stéttarfélaga. Á sama hátt munu viðkomandi stéttarfélög staðfesta þátttöku sína gagnvart Sandgerðisbæ.
Mynd: Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri og Magnús Magnússon formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis undirrita samninginn.