Sandgerðisbær greiðir fyrir námsgögn grunnskólanema
- Fjárhagsáætlun til næstu fjögurra ára samþykkt af bæjarstjórn
Foreldrar grunnskólabarna í Sandgerðisbæ munu ekki þurfa að greiða fyrir námsgögn og börn af erlendum uppruna fá kennslu í móðurmáli sínu. Þetta er meðal þess sem fjárhagsáætlun bæjarins til næstu fjögurra ára kveður á um en hún var afgreidd á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Við afgreiðslu áætlunarinnar var bókað að hún væri unnin með hliðsjón af tíu ára langtímaáætlun frá 2012 til 2022. Þá var einnig bókað að áætlunin standist ákvæði sveitarstjórnarlaga um rekstrarjöfnuð og skuldaviðmið og er áætlað að Sandgerðisbær nái þeim viðmiðum á árinu 2019.
Að sögn Sigrúnar Árnadóttur, bæjarstjóra í Sandgerði, ríkti góð samstaða innan bæjarstjórnarinnar um vinnslu fjárhagsgerðarinnar líkt og undanfarin ár. „Áætlunin ber þess merki að mikil áhersla er lögð á að stuðla að fjölskylduvænu samfélagi, má í því sambandi nefna að í fyrsta sinn munu námsgögn verða foreldrum nemenda grunnskólans að kostnaðarlausu, áfram verður veittur hvatastyrkur að fjárhæð 30.000 kr. til barna á aldrinum 4 til 18 ára til íþrótta- og frístundastarfs. Þá verður að nýju tekin upp kennsla á móðurmáli barna af erlendum uppruna,“ segir hún. Niðurgreiðsla til dagforeldra hækkar úr 35.000 í 40.000 krónur á mánuði miðað við fulla vistun.
Gert er ráð fyrir að rekstrartekjur Sandgerðisbæjar á árinu 2016 muni nema 1.763 milljónum króna en rekstrarútgjöld 1.622 milljónum kr. án fjármagnsliða. Með fjármagnsliðum er rekstrarniðurstaðan neikvæð um tæpar 75 milljónir kr.
Stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri Sandgerðisbæjar er fræðslu- og uppeldismál en í þann málaflokk fara um 48 prósent af tekjum sveitarfélagsins, næst á eftir eru æskulýðs- og íþróttamál með 12 prósent útgjaldanna. 9 prósent fara til félagsþjónustu.
Gert er ráð fyrir að 54 milljónum verði varið í fjárfestingar og framkvæmdir og tæpum 50 milljónum til viðhaldsframkvæmda. Gjaldskrár munu taka breytingum í takt við vísitölu neysluverðs og launa og hækka að jafnaði um 4,5 prósent á milli ára. Verðbólga og breytingar á kjarasamningum eru óvissuþættir sem geta haft áhrif á fjárhagsáætlunina en útgjöld vegna launa eru 44 prósentum af heildartekjum.