Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandgerðisbær auglýsir styrki
Föstudagur 12. október 2007 kl. 14:18

Sandgerðisbær auglýsir styrki

Sandgerðisbær hefur auglýst til umsóknar styrki sem bærinn veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum til að efla starfsemi og þjónustu, til að efla uppbyggingu á atvinnulífi, til umhverfisbreytinga og til að auðga lista- og menningarlíf bæjarbúa.

Til þessa verkefnis verður varið allt að kr. 60 milljónum króna á árunum 2006 -2010. Mikil áhersla er lögð á að styrkja og stuðla að sjálfsprottnu starfi, framtaki einstaklinga og fyrirtækja  sem stuðlar að farsælli þróun, betri lífsgæðum, fegurra umhverfi og fjölbreyttu mannlífi í bæjarfélaginu. Ætlunin er að skapa margfeldsisáhrif með fjármagni Sandgerðisbæjar í framangreindum málaflokkum og á þann hátt hraða breytingum í mannlífi og atvinnumálum bæjarbúa.

Verkefnið skiptist í fjóra hluta:

1-Frumkvöðlastyrkir.
Markmiðið er að styðja nýsköpunarhugmyndir einstaklinga og smærri fyrirtækja með því að veita smærri styrki  til  verkefna sem stuðla að framþróun viðkiptahugmynda eða átaks í menningarmálum bæjarfélagsins.
Styrkur þessi getur numið allt að þriðjungi heildarkostnaðar, að hámarki kr. 250.000.-

2-Átak til verkefna sem er atvinnuskapandi eða til menningarmála og viðburða.
Markmiðið er að styðja við verkefni og þar með eflingu atvinnutækifæra fyrirtækja til að skapa víðtæk áhrif sem stuðlar að farsælli þróun í atvinnumálum, betri lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi í bæjarfélaginu.
Styrkur þessi getur numið allt að þriðjungi heildarkostnaðar, að hámarki kr. 500.000.-

3- Átak í flutningi eða breytingum í rekstri og/eða umhverfisbreytingum.
Markmiðið er að stuðla að eflingu fyritækja sem eru nú þegar á staðnum eða hafa í hyggju að koma með rótgróin fyrirtæki til bæjarfélagsins. Einnig er markmiðið að bæjarfélagið taki þátt í umhverfisátaki með fyrirtækjum á þeirra vegum.
Styrkur þessi getur numið allt að þriðjungi heildar kostnaðar að hámarki kr. 875.000.-

4-Til þriggja stórverkefna verður varið kr. 30.000.000.- á kjörtímabilinu.
a) Til að efla þjónustu tengdri Keflavíkurflugvelli.
b) Til að koma á fót sjávardýrasafni.
c) Til að stórefla Fræðasetrið í Sandgerði.
Styrkur til verkefnis getur numið allt að þriðjungi kostnaðar að hámarki kr. 10.000.000.-

Umsóknir þurfa að berast til bæjarráðs fyrir 07. desember 2007 og verða afgreidd að fenginni umsögn viðkomandi fagráðs. Umsækjendum verða svo kynntar niðurstöður fyrir janúarlok 2008.

Fyrir utan ofantengd atriði er bærinn tilbúin til að bjóða frumkvöðlum og fyrirtækjum, sem vilja hefja starfsemi í nýjum atvinnurekstri í Sandgerði, tímabundna aðstoð með samningum við bæjarsjóð um greiðslu lóða-, gatnagerðar- og eða fasteignagjalda í samræmi við umsvif starfseminnar og fjölda atvinnutækifæra fyrir bæjarbúa á vegum umsóknaraðila. 

Umsóknir um styrki skulu innihalda eftirfarandi upplýsingar:
a)  Allar almennar upplýsingar um umsækjendur.
b)  Tilgang og markmið þess verkefnis og/eða starfsemi sem sótt er um styrk til.
c)  Verkáætlun sem m.a. upplýsir um tímalengd verkefnis og/eða starfsemi.
d)  Upplýsingar um fjármögnun verkefnis og/eða starfsemi að öðru leiti.
e)  Aðrar upplýsingar og gögn sem sérstaklega kann að verða óskað eftir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024