Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 22. desember 1999 kl. 20:15

SANDGERÐINGUR ÞÝÐIR FRÆGAN ENKAN HÖFUN

Nýlega var margfræg bók enska rithöfundarins Douglas Adams, The Hithchikers Guide to the Galaxy, gefin út í íslenskri þýðingu Sandgerðingsins, Grindvíkingsins, kennarans, löggunnar, togarasjómannsins og nú forritarans Kristjáns Kristmundssonar. Óður til ímyndunaraflsins Ekki er hægt að segja að Kristján hafi ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur við frumraun sína á þýðingum erlendrar skáldverka því bókin er af mörgun talin einn mesti óður mannkynssögunnar til ímyndunaraflsins og hugarflugsins. Adams snýr út úr nánast öllum hlutum í stórkostlegu háði þar sem fátt er tekið of alvarlega. Sýn hans á líf á öðrum plánetum og hugsanleg lögmál alheimsins er hreint út sagt mögnuð. Að vísu tekst honum ekki að sanna að til sé slíkur heimur sem hann skrifar um en hins vegar tekst honum óvéfengjanlega að sanna að í höfði okkar allra er til miklu stærri og fjölbreyttari heimur en við höfðum nokkurn tíma gert ráð fyrir. Þýdd um borð í Hábergi GK 199 „Ég þýddi bókina þegar ég var háseti á Hábergi GK199 frá Grindavík. Þó svo að sjómennskan sé svo sem ekkert sældarlíf þá gáfust þar frístundir til að sinna ýmsum áhugamálum. Ég fékk þá flugu í höfuðið að þýða bók! Þannig að ég nýtti mínar frístundir um borð ýmist niðri í káetu párandi á blað, flettandi í orðabók, eða uppi í brú þar sem ég síðan hamraði textann inn í tölvu. Upphaflega var það svo sem ekki ekki með útgáfu í huga sem ég réðst í þetta verk, kannski til að sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti þetta, en þegar ljóst var að ég myndi ljúka verkinu kviknaði vitanlega sú hugmynd að gaman væri að koma verkefninu alla leið. Það var reyndar ekki hlaupið að því að fá útgefanda að bókinni. Ég gekk á milli stóru útgáfufyrirtækjanna en ekkert þeirra lagði í að gefa bókina út. Þar á bæ voru menn smeykir um að hún höfðaði til of þröngs hóps fólks. Ég er hins vegar annarrar skoðunar. Mér finnst bókin eiga sérstakt erindi til okkar Íslendinga nú í svartasta skammdeginu. Það er fátt sem lýsir skammdegið betur upp en ærlegur húmor." Hver ertu Kristján? "Ég er fæddur og uppalinn í Sandgerði. Foreldrar mínir eru Kristmann Guðmundsson og Snjólaug Sigfúsdóttir og þar með hef ég afgreitt fyrstu tuttugu árin. Ég bý þessa stundina í Kópavogi ásamt eiginkonu minni, Önnu Maríu Sigurðardóttur og sonunum Sigurði Rúnari og Sindra. Við bjuggum reyndar síðustu tíu ár í Grindavík þar sem ég sinntu ýmsum störfum, var háseti á togara, kenndi við Grunnskólann og gerðist meira að segja laganna vörður um tíma. Fyrir rúmlega ári síðan fór í nám í forritun og kerfisfræði við Nýja tölvu- og viðskiptaskólann í Hafnarfirði og fékk í kjölfar námsins vinnu sem kennari við skólann. Í dag er forritun áhugamál númer eitt, á eftir fjölskyldunni að sjálfsögðu." Hvers vegna ákvaðstu að leggja fyrir þig að þýða þessa bók? "Það er í raun mjög einföld skýring á því. Ég heyrði titil bókarinnar nokkrum árum áður en ég las hana. Ég heillaðist strax af titlinum einum saman. Ég gerði mér reyndar ekki grein fyrir því þá um hvað bókin fjallaði, hvað þá meira. Síðar las ég svo bókina og varð ekki fyrir vonbrigðum. Sagan gerist að mestu leyti úti í geimnum en það er ekki það sem heillar mig, ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á vísindaskáldsögum. Það sem heillar mig hins vegar mest við verkið er það að nokkur maður skuli hafa svo frjótt ímyndunarafl sem raun ber vitni. Douglas Adams er hugmyndaflugmaður!" Nú hefur bókin verið hluti af námsefni framhaldsskólanema um allt land. Þýddir þú hana kannski til að losa framhaldsskólanema undan lestrarskyldunni? „Það er mjög fyndið að þú skulir spyrja að þessu. Svarið við spurningunni er einfaldlega nei, en það minnir mig óneitanlega á það þegar ég var sjálfur í enskuáfanga í FS. Við vorum að lesa Hamlet. Eitthvert skiptið mætti ég ekki í tíma og þá var hópurinn að vandræðast með eitthvert orð í bókinni. Þrautalendingin var víst sú að kennarinn fór á bókasafnið og ætlaði að athuga hvernig tiltekið orð væri í íslenskri þýðingu verksins. Á bókasafninu komst hún að því að tiltekin bók var ekki inni. Hver skyldi hafa verið með hana að láni?"
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024