Sandgerðingar himinlifandi með Sandgerðisdaga
Almenn ánægja er í Sandgerði með hvernig til tókst á Sandgerðisdögum í ár. Bæjarstjórn þakkar Ferða- og menningarráði bæjarins og starfsmönnum fyrir góð störf að undirbúningi og framkvæmd Sandgerðisdaga, en þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar.
Þá þakkar bæjarstjórn sérstaklega þeim unglingum sem unnu að undirbúningi og framkvæmd daganna. Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með uppsetningu Björgunarsveitarinnar á flugeldasýningunni.
Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með framkvæmd Áhaldahúss Sandgerðisbæjar á hreinsun í bænum fyrir dagana. Einnig fyrir þátttöku í undirbúningi og framkvæmd þeirra.
Þá vill bæjarsjórn sérstaklega lýsa yfir ánægju sinni með almenna þátttöku bæjarbúa í hátíðarhöldnum. Sem sagt, allir himinlifandi í Sandgerði þessa dagana.
Mynd: Frá Sandgerðisdögum 2007. Ljósmynd: www.245.is