Sandgerðingar eignast útivistarparadís
Sandgerðisbær og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa ákveðið að ráðast í samstarfsverkefni undir heitinu Yndisgróður. Verkefnið snýst um val harðgerðra plantna og plöntun þeirra í fyrirhuguðum skrúðgarði bæjarins en honum hefur verið fundinn staður í Gryfjunni svokölluðu, sem er fyrrum efnistökusvæði. Bærinn hefur látið hanna þar glæsilegt útivistarsvæði sem mun njóta skjóls af veggjum gryfjunnar. Hafist verður handa við verkefnið nú í vor og verður þetta því upplögð sumarvinna fyrir unga fólkið í bænum.
Með samstarfinu fær Landbúnaðarháskólinn aðgang að öruggu tilraunalandi og verklegri aðstoð við umhirðu. Ávinningur sveitarfélagsins er einkum fólgin í plöntum í klónasöfn og tilraunabeð, sérfræðilegri ráðgjöf um skipulag, plöntur og plöntunotkun auk þess sem skólinn leggur til verkstjórn á hluta framkvæmdanna. Ekki síst gefst bæjarfélaginu með þessu gott tækifæri til að byggja upp áhugavert útivistarsvæði, bæjarbúum til ánægju og yndisauka. Verkefnið verður fólgið í að flokka, rannsaka og miðla upplýsingum um harðgerar plöntur til uppbyggingar á grænum svæðum.
Gamla malargryfjan fær því nýtt hlutverk innan tíðar en leitast verður við að hafa umhverfið sem náttúrulegast, t.d. með því að planta ekki gróði í raðir. Gryfjan verður að útivistarsvæði í sem víðustum skilningi. Þar verður samkomusvæði með brennustæði í bland við ævintýraleiksvæði og fræðsluumhverfi, rjóður með aðstöðu fyrir nestisferð fjölskyldunnar og stígar fyrir göngugarpa og skokkara, svo nokkuð sé nefnt. Svæðið sem um ræðir er um 4200 fermetrar og er ofan við byggðina austanmegin.
---
Mynd: Þessi afstöðumynd sýnir fyrirhugað útivistarsvæði í Gryfjunni.