Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 25. mars 2002 kl. 11:10

Sandgerði: Viðbygging gjörbreytir leikskólastarfinu

Sandgerðingar opnuðu á föstudag viðbyggingu við leikskólann Sólborg, sem tvöfaldar húsrými skólans. Í nýja hlutanum er ein leikskóladeild, fjölnotasalur, skrifstofa leikskólastjóra ásamt stóru anddyri fyrir fatnað leikskólabarna. Stærsta breytingin er hinsvegar fullkomið eldhús sem mun gjörbreyta þeirri þjónustu sem bæjarfélagið tekur þátt í að veita foreldrum leikskólabarnanna.Viðbyggingin við leikskólann er 274,5 fermetrar en eldra húsnæði er 263,8 fermetrar. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 60 milljónir króna, en tvö tilboð bárust í byggingu leikskólans en Hagtré hf. byggði viðbygginguna fyrir 46,7 milljónir kr. Kostnaður við búnaðarkaup, hönnun og lóðarfrágang er áætlaður að verði 14,4 milljónir kr.
Það kom fram við opnun leikskólans að öll framkvæmdin hefur gengið nokkuð vel og er nánast á áætlun, þrátt fyrir smávægilegar breytingar sem gera þurfti frá upphaflegum teikningum.
Ákvörðun um stækkun skólan var samþykkt við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2001. Hönnunarvinna við húsið hófst í kjölfarið. Sú vinna var í höndum Arkþings, Bolholti 8 í Reykjavík. Vinna við burðarþol var á hendi Verkfræðistofu Braga og Eyvindar. Vatns- og hitalagnir voru unnar af Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns, raflagnir vann Rafhönnun og lóð var skipulögð af Landslagi ehf. Tilboð voru opnuð í bygginguna 27.03. 2001 en tvö tilboð bárust. Annað frá Hagtré upp á 46,7 milljónir kr. og hitt frá Meistarahúsum upp á 49,1 milljón króna.
Það kom svo í hlut Óskars Gunnarssonar, forseta bæjarstjórnar, að afhenda Jórunni Guðmundsdóttur lyklavöld að nýju byggingunni sem á eftir að breyta miklu í leikskólamálum Sandgerðinga. Séra Björn Sveinn Björnsson, sóknarprestur, flutti blessunarorð og börnin á leikskólanum sungu og spiluðu.
Margt góðra gjafa barst í tilefni dagsins, m.a. myndbandsupptökuvél frá Landsbankanum í Sandgerði til þess að starfsfólk leikskólans geti fest á myndband ógleymanlegar stundir meðal barnanna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024