Sandgerði verður norðurljósabær kvöldsins
Sandgerðingar kunna að fagna norðurljósum. Mikilli ljósaveislu er spáð í kvöld og til að bæjarbúar og gestir geti notið dýrðarinnar verða götuljós í Sandgerði slökkt í klukkustund milli kl. 22 og 23 í kvöld.
„Eyþór vinur minn setti smá færslu á Facebook um hvort þetta væri ekki sniðugt og margir tóku undir með honum og bentu á að nokkur önnur sveitarfélög ætluðu að slökkva ljósin. Við Sigrún bæjarstjóri sáum þessa áskorun þegar við komum saman út af fundi í Reykjanesbæ nú seinni partinn og hún fór beint í málið. Hafði samband við Sandgerðinginn Júlíus Jónsson hjá HS-veitum sem brást hratt og vel við og sá til þess að ljósin verða slökkt. Stundum er nefnilega hægt að bregðast skjótt við skemmtilegum hugmyndum og græja hlutina með litlum fyrirvara. Svo vona ég bara að sem flestir njóti ljósadýrðarinnar á himninum í kvöld,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði á fésbókinni rétt í þessu.