Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sandgerði: Tveggja milljarða hagnaður
Föstudagur 23. maí 2008 kl. 18:16

Sandgerði: Tveggja milljarða hagnaður


Rekstrarniðurstaða Sandgerðisbæjar var jákvæð um rúma tvo milljarða króna á síðasta ári. Þetta kom fram þegar ársreikningur var afgreiddur á síðasta bæjarstjórnarfundi, en þar eru A og B hlutar taldir saman.

í A hluta námu tekjur umfram gjöld 2.145,2 millj. kr. Tekjufærsla söluhagnaðar vegna eignarhluta í Hitaveitu Suðurnesja hf. nam 2.045,7 millj. kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2007 nam 2.525,7 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta 2.965,9 millj. kr.

Rekstrartekjur ársins 2007 voru um 100 millljónum hærri en árinu áður, eða 973,5 milljónir, þar af voru tekjur A hluta 866,8 milljónir.

Laun og launatengd gjöld hjá samstæðunni voru 522,4 millj. kr. Fjöldi starfsmanna var 145 á árinu í 119 stöðugildum. Skatttekjur sveitafélagsins voru 453 þús. kr. á hvern íbúa.

Í greinargerð með reikningnum segir að uppgangur og fólksfjölgun hafi verið mikil í sveitarfélaginu undanfarin ár og er búist við að framhald verði á slíku á næstu árum. Fjöldinn allur af íbúðum eru í byggingu og margar stórframkvæmdir þegar hafnar eða í undirbúningi.

Sandgerðishöfn hefur verið þung í rekstri undanfarin ár og í fyrra var rekstrarhalli hennar 27,4 milljónir. Það er engu að síður betra en hefur verið og er hagræðingu í rekstri þakkað fyrir það.

Eins og fyrr segir var hagnaður bæjarins vegna sölu á hlutabréfum í Hitaveitu Suðurnesja 2.045,7 milljónir króna. Sérstakur sjóður hefur verið stofnaður innan A-hluta sem heldur utan um fjármunina. Raunávöxun sjóðsins mun verða nýtt árlega í þágu íbúa sveitarfélagsins en verðbættur höfustóll geymdur til ávöxtunar.

Reikningarnir voru samþykktir samhljóða, en S-listi, sem situr í minnihluta ásamt B-lista, lagði þó fram nokkrar athugasemdir.

Á meðal þess sem S-listi bendir á er að skuldbindingar bæjarins vegna leigusamninga við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. nam um 1.500 milljónum um áramót og þar af voru 55% í Evrum. Gengisbreytingar hafi þegar hækkað þann hluta um 210 milljónir frá áramótum og því sé umhugsunarefni að meirihluti D- og K-lista hyggist engu að síður auka skuldbindingar bæjarsjóðs í Evrum.

Þá segir í bókun S-lista að bág staða hafnarinnar og Fræðasetursins sé áhyggjuefni, sérstaklega hvað varðar hið síðarnefnda. Taprekstur hafi verið á rekstri setursins, 42,3 milljónir í fyrra, sem er 60% meira en árið þar á undan og tekjur séu langt undir væntingum. Kölluðu þau eftir algerri endurskoðun á starfsemi setursins fyir árslok.

Að lokum benti S-listi á að ýmis atriði í reikningum veki upp spurningar. Þar á meðal væri yfirkeyrsla við framkvæmdir á lóðinni við Vörðuna. Í niðurlagi bókunarinnar sagði: „Á meðan fjármagni er dælt í slíkt gæluverkefni er dregið úr nauðsynlegum fjárfestingum við höfnina, vatnsveitu og fráveitu. Slíkar staðreyndir eru til þess fallnar að vekja upp spurningar um forgangsröðun verkefna hjá meirihlutanum.“

Loftmynd/Oddgeir  - Séð yfir Sandgerði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024