Sandgerði: Enn tekist á um Fasteign
Meirihlutinn í bæjarstjórn Sandgerðis sat undir harðri gagnrýni minnihlutans á síðasta bæjarstjórnarfundi þegar fjallað var um þátttöku sveitarfélagins í Fasteign og þá sér í lagi vegna viðbyggingar við grunnskólann. Minnihlutinn telur að í ljósi veikrar stöðu Fasteignar á lánamarkaði sé nauðsynlegt að öll þátttaka Sandgerðisbæjar í félaginu verði tekin til endurskoðunar.
Minnihlutinn í bæjarstjórn átelur Eignarhaldfélagið Fasteign fyrir að bjóða ekki út framkvæmdir við Grunnskólann í Sandgerði upp á rúmlega 800 milljónir króna. Þá segir minnihlutinn meirihlutann vera kominn í vandræði með þátttöku sinni í Fasteign, samkvæmt því sem kemur fram í bókunum frá fundinum.
Á fundinum kom til umræðu lántaka Sandgerðisbæjar vegna framkvæmda við grunnskólann. Eins og komið hefur fram í fréttum hyggst sveitarfélagið taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga þar sem erfitt er fyrir Fasteign að nálgast lánsfé eins og ástandið er á fjármálamörkuðum um þessar mundir.
Í greinargerð sem bæjarstjóri lagði fram segir m.a. að talið hafi verið rétt að Sandgerðisbær sækti um umrætt lán þar sem annað gæti orðið til þess að seinka framkvæmdum við grunnskólann. Í framhaldi af greinargerðinni var lögð fram tillaga um að taka 400 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga með veði í tekjum sveitarfélagins.
Minnihlutinn lagði fram breytingartillögu þar sem lagt var til að framkvæmdin yrði sett inn í Fasteignafélag Sandgerðis en framseldist ekki til Fasteingar hf. Sú breytingartillaga var felld. Tillaga meirihlutans var samþykkt með atvæðum meirihlutans en minnihlutinn greiddi atvæði á móti.
Lesa má greinargerð bæjarstjóra, bókanir og nánari efnisatriði í fundargerð bæjastjórnar, smellið hér.