Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samverustund á morgun til að minnast látinna á Reykjanesbraut
Laugardagur 29. nóvember 2003 kl. 15:10

Samverustund á morgun til að minnast látinna á Reykjanesbraut

Samverustund verður á Reykjanesbraut í Kúagerði á morgun, sunnudag, kl. 17. Þá mun áhugahópur um örugga Reykjanesbraut sýna á mynd- og táknrænan hátt stöðu Reykjanesbrautar í dag. Allt áhugafólk um örugga Reykjanesbraut, sem og aðstandendur þeirra sem látist hafa í umferðarslysum á Reykjanesbraut eru hvattir til að mæta að minnisvarðanum í Kúagerði.
30. nóvember markar þriggja ára tímabil frá hörmulegu slysi á Reykjanesbraut sem varð upphaf baráttu áhugahóps um örugga Reykjanesbraut. Með því tók áhugahópurinn upp verkefni sem barist hafi verið fyrir af ýmsum þingmönnum og góðum einstaklingum í meira en áratug.
Kveikt verður á friðarljósum til minningar um þá sem látist hafa í umferðarslysum á Reykjanesbraut frá því vegurinn var lagður fyrir um fjórum áratugum. Þann 30. nóvember árið 2000 varð alvarlegt umferðarslys þar sem þrír Suðurnesjamenn létu lífið í árekstri tveggja bíla á brautinni. Sá atburður markar upphafið af starfi áhugahóps um örugga Reykjanesbraut. Það er hins vegar staðreynd að frá 30. nóvember 2000 og til dagsins í dag hafa 12 einstaklingar látist í umferðarslysum á Reykjanesbraut. Á þessu ári hafa sex einstaklingar látist á Reykjanesbrautinni sem gerir árið það ljótasta í sögu Reykjanesbrautarinnar. Öll banaslysin á þessu ári, utan eins, má rekja til áreksturs milli bifreiða sem koma út gagnstæðum áttum. Frá því áhugahópurinn um öruggari Reykjanesbraut tók til starfa hefur að meðaltali einn einstaklingur látist á 90 daga fresti á Reykjanesbrautinni. Auk þess hefur fjöldi einstaklinga slasast og mun aldrei bíða þess bætur.
Í bréfi frá áhugahópnum til Víkurfrétta og annarra fjölmiðla segir að áhugahópurinn hafi aldrei borið framkvæmdir við Reykjanesbraut saman aðrar framkvæmdir á Íslandi, en hópurinn styður allar þær framkvæmdir sem stuðla að betri umferðarmenningu og fækkun slysa. ullyrðingar áhugahópsins um hagstæð verð og verkhraða hafa staðist og gott betur. Núverandi tilboð voru um 60% af kostnaðaráætlun og eru verktakar um 6 mánuðum á undan áætlun. Seinni hluti Reykjanesbrautar hefur verið hannaður og er tilbúin til útboðs.
Verktakar gætu klárað allt verkið á rúmu ári og jafnvel fjármagnað sé þess óskað.
Áhugahópurinn mun ganga hart fram um að þau loforð sem gefin voru á landsfrægum borgarafundi í Stapa verði efnd. Við köllum hér með eftir stuðningi allra landsmanna, þingmanna, fjölmiðlamanna til að fylgja þessari mikilvægu baráttu til enda. Mannslíf okkar sjálfra er í veði, segir í bréfi áhugahópsins.

 

Myndir frá slysum og breikkun Reykjanesbrautar. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024