Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samtvinnað atvinnuflugmannsnám
Föstudagur 6. júní 2014 kl. 10:28

Samtvinnað atvinnuflugmannsnám

– í fyrsta skipti á Íslandi.

Flugakademía Keilis hefur fyrstur flugskóla á Íslandi fengið samþykki Samgöngustofu til að halda samtvinnað nám til atvinnuflugmannsréttinda (ATPL Integrated Flight Training Program).

Hingað til hafa flugnemar á Íslandi þurft að ljúka einkaflugmannsréttindum til að mega sitja bóklegt atvinnuflugmannsnámskeið (ATPL). Að þeim loknum þurftu þeir síðan að ljúka bóklegu ATPL námskeiði áður en hægt var að skrá í sig í verkleg námskeið til atvinnuflugmanns- og blindflugsréttinda, sem og að ljúka lágmarks flugtímum til að standast inntökukröfur námskeiðanna. Á samtvinnuðu ATPL námskeiði byrjar flugneminn á fyrsta degi í þjálfun til atvinnuflugmannsskírteinis. Námið er þaulskipulagt, bæði bóklegt og verklegt og tekur u.þ.b. 16 mánuði í fullu námi.

Nú þegar er að verða fullmannað í fyrsta samtvinnaða bekkinn hjá Flugakademíu Keilis og stefnir í að boðið verði upp á tvo samhliða bekki í atvinnuflugmannsnáminu í haust. Til að mæta þessum auknu umsvifum hefur Flugakademían þegar fest kaup á sjöttu kennsluflugvélinni, auk fullkomins flughermis (FNPTII/Flight Navigation Procedure Trainer) frá Redbird.

Flugakademían starfrækir nú samtals sex fullkomnar flugvélar af gerðinni Diamond, þar af eina Diamond DA42 Twin Star sem er eina kennsluvél á landinu búin afísingarbúnaði. Nýjasta kennsluvél skólans TF-KFF flaug jómfrúarflug sitt á Íslandi þann 4. júní síðastliðinn og tók slökkvilið Isavia á Keflavíkurflugvelli á móti vélinni með konunglegri viðhöfn. Um er að ræða fullkomna Diamond DA20-C1 Eclipse vél sem er meðal annars búin Garmin 500 tölvubúnaði sem skilar öllum flugupplýsingum rafrænt upp á tvo stóra skjái.

Gert er ráð fyrir að því að bæta við enn fleiri kennsluflugvélum á næstu misserum til að mæta þessari vinsælu námsleið sem býðst nú í fyrsta skipti á Íslandi.

Nánari upplýsingar um námið má nálgast á www.flugakademia.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024