Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samtök verslunar og þjónustu mótmæla stækkun Fríhafnarinnar
Föstudagur 24. júní 2005 kl. 13:47

Samtök verslunar og þjónustu mótmæla stækkun Fríhafnarinnar

Samtök verslunar og þjónustu hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt er stækkun Fríhafnarverslunarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og stórauknu vöruframboði hennar. Segir meðal annars í yfirlýsingunni að um sé að ræða „óþolandi samkeppni ríkisins við innlenda verslun.“

Yfirlýsingin er svo hljóðandi:

SVÞ- Samtök verslunar og þjónustu mótmæla stækkun Fríhafnarkomuverslunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) og stórauknu vöruframboði hennar. Þessi framkvæmd er í algjörri andstöðu við stefnu stjórnarflokkanna og einnig þau skilaboð um fríhafnarverslun, sem ábyrgir aðilar í utanríkisráðuneytinu hafa borið samtökunum og hafa verið rædd í stjórn samtakanna.

Það fer ekki á milli mála að komuverslunin í FLE er á innlendum markaði enda starfar hún þannig. Verðtökufólk verslunarinnar skráir verð í verslunum í Reykjavík og auglýsingum hennar í innlendum auglýsingamiðlum er beint til sama markaðar og innlend verslun þjónar. Um þetta er ekki deilt.

Ríkið á og rekur þessa verslun, en sérstök stjórn og framkvæmdastjóri stýra rekstrinum í umboði utanríkisráðuneytis sem fer með málefni flugstöðvarinnar og flugvallarins. Stjórnskipulega er utanríkisráðuneytið eigandi og rekstraraðili stærstu snyrtivöruverslun landsins.

Breytingin sem nú var gerð á komuversluninni felst í auknu húsrými og auknu vöruframboði, einkum snyrtivörum. Þessi verslun er m.a. auglýst í FLE með auglýsingu á gólfi sem komufarþegar fara um þar sem stendur “Up to 50% lower than city prices”. Stór hluti verðmunar er virðisaukaskatturinn og síðan vörugjöld og tollar. Einnig er ljóst að svona stór verslun, sem jafnframt er ríkisverslun, nýtur stærðarinnar og eignarhaldsins við innkaup og nær þannig lágu innkaupsverði sem getur endurspeglast í lágu smásöluverði. Með auglýsingum sínum er Fríhöfnin (=ríkið) að hvetja fólk til að greiða ekki skatta og tolla eins og innlend verslun þarf að standa ríkinu skil á. Þetta er óþolandi samkeppni ríkisins við innlenda verslun og ber tafarlaust að afleggja hana í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna.

SVÞ –Samtök verslunar og þjónustu hvetja utanríkisráðuneytið til að hefja nú þegar undirbúning að lokun þessarar komuverslunar og einkavæðingu verslunar sinnar fyrir brottfararfarþega í FLE og álíka flugstöðvum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024