Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi stofnuð á morgun
Stofnfundur atvinnurekenda á Reykjanesi, SAR, verður haldinn fimmtudaginn 27. maí kl.17.30 á Ránni. Hugmyndin að stofnun samtakanna byggir á því að greiða götu atvinnutækifæra á svæðinu.
„Það hefur lengi hefur verið skortur á talsmanni atvinnurekenda á Reykjanesi. Má leiða að því líkur að þörf á slíkum aðila hafi jafnvel aldrei verið meiri en einmitt nú,“ segir Ríkharður Ibsen einn aðstandenda hins nýja félags.
Ríkharður sagði aðstæður á markaði hafa versnað mikið síðan hrunið skall á og atvinnuleysi á Reykjanesi hefur verið það mesta á landinu. Hann sagði nauðsynlegt að markaðurinn á svæðinu eignaðist sterkan málsvara en um 1.600 fyrirtæki eru skráð á Reykjanesi.
„Hlúa þarf að rótgrónum fyrirtækjum og frjóvga jarðveginn þannig að nýir sprotar geti vaxið. Framtíðarsýn byggir á því að uppræta atvinnuleysi á svæðinu – vinna stöðugt að því að koma því niður í ásættanlega tölu. Spurningin er sú hversu langan tíma tekur það? Hvað er hægt að gera til að stytta þann tíma,“ sagði Ríkharður.
Ríkharður sagði að meðal þess sem ný samtök myndu vinna að væri að aðstoða markaðinn við að sporna gegn atvinnuleysi og vera málsvari fyrirtækja á Reykjanesi í hagsmunamálum atvinnulífsins. Þá væri nauðsynlegt að skapa nánari tengsl milli fyrirtækja og fjármálastofnana, lífeyrissjóða og opinberra aðila.