Samþykktu að veita 150 milljónum króna til atvinnulífsins á Suðurnesjum
Tillaga stjórnar Eignarhaldsfélags Suðurnesja að ráðstafa 150 milljónum króna til atvinnumála á Suðurnesjum var samþykkt á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Næsta verk stjórnar Eignarhaldsfélags Suðurnesja verður að móta sér reglur sem hafðar verða til viðmiðunar við útlutun til verkefna. Þegar regluverkið liggur fyrir verður ráðist í að auglýsa eftir verkefnum til að lána til, styrkja eða til hlutafjárkaupa.
Í tillögunni sem samþykkt var í gær segir að stjórn félagsins leggi til við hluthafafund að félagið ráðstafi allt að 150 milljónum af lausafé félagsins til eflingar atvinnulífs á Suðurnesjum, með veitingu lána, hlutafjárkaupum eða styrkjum, samkvæmt nánari reglum sem stjórn félagsins setur sér.
Eignarhaldsfélag Suðurnesja er í 70% eigu ríkisins og Byggðastofnunar, 20% í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og 10% í eigu Lífeyrissjóðsins Festu og annarra fagfjárfesta.