Samþykkt með tilvitnuðum fyrirvara bæjarstjórnar

Verkís ehf. hefur óskað eftir því fyrir hönd Stakksbergs ehf. að skipulags- og matslýsing frá 30. janúar 2019 verði tekin til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ. Jafnframt er óskað eftir heimild til að vinna deiliskipulagsbreytingu í samræmi við skipulags- og matslýsinguna.
 
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar féllst á það, á fundi 22. janúar sl.,  „fyrir sitt leyti á að Stakksberg ehf. hefji vinnu við skipulags- og matslýsingu og deiliskipulagsbreytingu í samræmi við beiðni þeirra þar að lútandi. Það skal þó áréttað að Reykjanesbær hefur skipulagsvald á svæðinu og tekur skipulagstillögur fyrirtækisins til afgreiðslu þegar málsmeðferð skv. lögum er lokið. Þar áskilur sveitarfélagið sér rétt til að hafna tillögunum, enda byggi sú ákvörðun á lögmætum sjónarmiðum.“
 
Á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, sem haldinn var 15. febrúar sl var erindið samþykkt með tilvitnuðum fyrirvara bæjarstjórnar.
 
Gunnar Felix Rúnarsson fulltrúi Miðflokksins bókaði á fundinum: „Miðflokkurinn hafnar sem fyrr uppbyggingu/endurræsingu kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Slíkt er þvert gegn vilja megin þorra íbúa Reykjanesbæjar. Einnig skal á það minnt að slík andstaða er við málið að nú þegar hafa andstæðingar verksmiðjunnar skilað inn undirskriftarlistum með lögbundnu lágmarki íbúa til að knýja fram íbúakosningu. Fulltrúi Miðflokksins setur sig alfarið upp á móti þessari tillögu að breyta deiliskipulagi á þessu svæði“.