Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samþykkt að ráða Magnús í starf bæjarstjóra Garðs
Frá aukafundi bæjarstjórnar í Garði nú áðan þar sem samþykkt var að ráða Magnús Stefánsson í starf bæjarstjóra til loka kjörtímabils. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Fimmtudagur 12. júlí 2012 kl. 14:27

Samþykkt að ráða Magnús í starf bæjarstjóra Garðs

Bæjarstjórn Garðs samþykkti nú áðan, á aukafundi bæjarstjórnar, með fjórum atkvæðum meirihlutans að ráða Magnús Stefánsson, fyrrum félagsmálaráðherra, sem bæjarstjóra Sveitarfélagsins Garðs til tveggja ára. Fulltrúar minnihlutans sátu hjá við ráðninguna og bentu á að enn væri í gildi ráðningarsamningur við Ásmund Friðriksson.

Starf bæjarstjóra sveitarfélagsins Garðs var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu þann 26. maí 2012. Sá ráðningarskrifstofan Intellecta um ráðningarferlið. Alls bárust 30 umsóknir. Ráðgjafar frá Intellecta ehf., Ari Eyberg og Þórður S. Óskarsson, fóru yfir allar umsóknir og mátu þær út frá þeim viðmiðum sem fram komu í auglýsingu um starfið. Það var mat ráðgjafa Intellecta að fjórir umsækjendur hafi staðið framar í samanburði við aðra. Viðtöl við umsækjendurna fóru fram 27. júní 2012 á skrifstofu Intellecta. Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar voru viðstödd öll viðtölin ásamt Ara Eyberg frá Intellecta.

Niðurstaða úr viðtölum og umsagnarleit var sú að Magnús Stefánsson kom afgerandi best út úr því mati. Stjórnunarreynsla Magnúsar fellur vel að starfi bæjarstjóra. Auk þess að hafa verið félagsmálaráðerra, sveitarstjóri og bæjarritari starfaði hann sem framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar, gegndi formennsku í Fjárlaganefnd Alþingis. Öll þessi störf, ásamt ýmsum öðrum, hafa veitt honum góða stjórnunarreynslu.

Á aukafundi bæjarstjórnar nú áðan bókaði D-listinn eftirfarandi:
„Það er ekki rétt að fulltrúum D-lista hafi staðið til boða sama aðkoma og fulltrúum meirihluta.

Rétt er að það komi fram að við fengum nafnalista með umsækjendum sendann til okkar, sama nafnalista og birtist samtímis á heimasíðu Garðs. Við höfum fengið uppl um að fulltrúar meirihluta hafi fengið mun nákvæmari lista með nánari uppl. Fulltrúar meirihluta hafa einnig haft ferilsskrár umsækjenda sem þeir sáu ekki ástæði til að deila með okkur!

Allt tal um að við höfum haft sömu aðkomu og meirihluti er því ekki sannur og væri réttara að staðreyndir væru viðurkenndar.

Hið rétta er að okkur var boðið að taka þátt í viðtölum í lok ferilsins, fyrst þegar einungis einum fulltrúa var boðið að sitja viðtöl við fjóra útvalda einstaklinga, og svo öllum fulltrúum þegar búið var að velja 3 einstaklinga til seinna viðtals. Þetta er ástæða þess að við vildum ekki koma að ferlinu í lokin“.

Á aukafundi bæjarstjórnar Garðs nú áðan vöktu bæjarfulltrúar D-listans athygli á því að í gildi væri ráðningarsamningur við Ásmund Friðriksson. Því var lögð fram fyrirspurn og bókun sem var svohljóðandi:

„Í ljósi þess að meirihluti N- og L-lista í bæjarstjórn Garðs hefur ráðið nýjan bæjarstjóra til starfa og gert við hann ráðningarsamning sem gildir til loka kjörtímabilsins er óskað eftir skriflegu svari frá meirihlutanum við eftirfarandi spurningu; Hyggst meirihluti bæjarstjórnar Sv. Garðs standa við gerðan ráðningarsamning?“ og er þar átt við samning við Ásmund Friðriksson

Svar frá  Jónínu Holm,forseta bæjarstjórnar var:
„Ráðningarsamningur Ásmundar Friðrikssonar er ekki á dagskrá“.

Forseti bæjarstjórnar las þá upp tillögu að ráðningu bæjarstjóra sem var eftirfarandi:

„Fulltrúar N og L lista í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs leggja til að Magnús Stefánsson verði ráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins og gildir ráðningin út kjörtímabilið, með þeim fyrirvara að ef honum verði sagt upp áður en kjörtímabilinu lýkur fái hann laun í sex mánuði, en ef hann verður út kjörtímabilið og verður ekki endurráðinn fær hann þriggja mánaða laun“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tillagan var samþykkt með 4 atkvæðum N- og L- lista fulltrúar D- lista sátu hjá. Þá var undirritaður ráðningarsamningur við Magnús lagður fram til samþykktar og var hann samþykktur með atkvæðum N- og L-lista en fulltrúar D-lista sátu hjá.

Í lok fundar lögðu fulltrúar D-lista fram eftirfarandi bókun:

„Þegar nýr meirihluti tók til starfa lögðu þeir til að Ásmundi Friðrikssyni yrði sagt upp störfum. Ástæða uppsagnar var að bæjarstjóri hefði verið ráðin af D-lista og tekið þátt í kosningabaráttu með D-listanum. Nýr meirihluti vildi vandaða stjórnsýslu og lýðræðisleg vinnubrögð, ráða átti viðskiptamenntaðan bæjarstjóra valinn af fagaðilum og með breiðri sátt bæjarfulltrúa.

Fulltrúar D-lista komu ekki að ráðningu nýs bæjarstjóra enda ekki hafðir með í ráðum fyrr en þeim var boðið að taka þátt í lokaviðtölum við þrjá útvalda einstaklinga. Eflaust má kalla þetta lýðræðislegt og leið til að ná breiðri sátt, en það er ekki skilningur okkar á þeim hugtökum.

Sú leið sem hinn nýi meirihluti hefur valið að fara mun hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir sveitarfélagið, peninga sem betra væri að nýta til fjölmargra annarra verka.

Fulltrúar D-lista sitja hjá við afgreiðslu ráðningarinnar enda er ráðning hins nýja bæjarstjóra Garðs alfarið á á ábyrgð hins nýja meirihluta“.