Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samþykkt að opna þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í Hljómahöll - ef þörf krefur
Fimmtudagur 16. nóvember 2023 kl. 11:15

Samþykkt að opna þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í Hljómahöll - ef þörf krefur

Samþykkt hefur verið í Bæjarráði Reykjanesbæjar að opna þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga í Hljómahöll ef þörf krefur, í samstarfi við Almannavarnir, Grindavíkurbæ og Rauða Krossinn. Þetta kemur fram í bókun Bæjarráðs Reykjanesbæjar eftir fund þess í morgun.

Þar stendur:

„Jarðhræringar á Reykjanesskaga síðastliðnar vikur gerðu það að verkum að almannavarnir tóku ákvörðun um að rýma Grindavík og lýsa yfir neyðarstigi. Þessi atburður hafði í för með sér að nágrannar okkar og vinir í Grindavík þurftu að yfirgefa heimili sín.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá fór strax af stað mikil vinna við að greina hvernig við í Reykjanesbæ getum sem best orðið að liði. Fjöldahjálparstöð var opnuð og verið er að kortleggja húsnæði sem getur staðið til boða bæði íbúðarhúsnæði sem öruggt skjól og húsnæði þar sem hægt er að koma mikilvægum verðmætum í geymslu á meðan atburðurinn gengur yfir. Stjórnendur Reykjanesbæjar eru í nánu samstarfi við stjórnendur Grindavíkurbæjar til að kanna m.a. möguleikann á að bjóða leik- og grunnskólabörnum og starfsfólki upp á rými til að skólastarf geti haldið áfram. Íþrótta- og tómstundafélög hafa einnig boðið fram aðstoð sína enda er mikilvægt að börn og ungmenni geti áfram sinnt íþrótta- og tómstundastarfi. Stjórnendur eru einnig að vinna að lausnum til að tryggja að mikilvæg velferðarþjónusta standi íbúum Grindavíkur áfram til boða. Þessi vinna stendur yfir en nú þegar hafa grunnskólar í Reykjanesbæ tekið á móti nemendum úr Grindavík og er allt kapp lagt á að hlúa vel að þeim og fjölskyldum þeirra á meðan þessi náttúruvá stendur yfir.

Auk alls þessa hafa aðrar stofnanir, fyrirtæki og einkaaðilar í Reykjanesbæ einnig lagt hönd á plóg enda mikilvægt að við stöndum öll saman sem eitt. Íbúar Reykjanesbæjar standa þétt við bakið á Grindvíkingum og munu gera allt sem hægt er til að aðstoða þá á þessum erfiðu tímum.“

Upplýsingar frá Reykjanesbæ vegna áhrifa Neyðarstigs Almannavarna á íbúa Grindavíkur:

https://www.reykjanesbaer.is/is/stjornsysla/rnb/frettir/ahrif-neydarstigs-almannavarna