Samþykkt að lokið verði að fullu við nýjan leikskóla
Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt samhljóða að lokið verði að fullu við uppbyggingu á nýjum leikskóla við Byggðaveg í Sandgerði þannig að leikskólinn rúmi sex leikskóladeildir. Bragi Guðmundsson ehf. er aðalverktaki byggingarinnar og ganga framkvæmdir vel og áætluð verklok á áður umsömdu verki eru í desember næstkomandi. Verktakinn hreppti þó miklar vetrarhörkur á nýliðnum vetri þar sem framkvæmdasvæðið fylltist af snjó í kringum jól og áramót.
Minnisblað frá sviðsstjóra skipulags-og umhverfissviðs var lagt fyrir bæjarráð sem hefur falið bæjarstjóra að leggja fyrir bæjarráð tillögu um útfærslu og viðauka við fjárhagsáætlun til að mæta þeim aukna kostnaði sem þessari breytingu fylgir.
Með því að ljúka leikskólanum að fullu er sveitarfélagið m.a. að bregðast við aðstæðum sem hafa skapast í sveitarfélaginu eftir að mygla kom upp á leikskólanum Sólborg.