Samþykkja breytingu á deiliskipulagi við Stað
– umsókn um byggingarleyfi tekin fyrir í næstu viku
Skipulagsnefnd Grindavíkur hefur samþykkt umsókn Samherja um breytingu á deiliskipulagi fyrir Stað vestan Grindavíkur. Eins og fram kom í síðustu viku hafði nefndin hafnað umsókn Samherja um byggingarleyfi fyrir seiðahúsi við Stað.
„Það var kannski gert meira úr þessu en þurfti. Byggingaráformin voru í andstöðu við deiliskipulag sem tiltölulega einfalt er að gera breytingar á þarna út á Stað. Deiliskipulagsbreyting vegna þessa var tekin fyrir og samþykkt í skipulagsnefnd Grindavíkurbæjar í síðustu viku. Ég geri ráð fyrir að byggingaráformin komi aftur til nefndarinnar á næsta fundi sem fer fram á mánudaginn kemur, 19. desember. Við höfum átt í góðu samstarfi við Samherja í kjölfarið. Aðstæður til fiskeldis á svæðinu við Stað og á fleiri stöðum vestan við þéttbýli hjá okkur er ákaflega góðar. Stækkun á seiðastöðinni tryggir og styrkir vaxtarskilyrði fiskeldis Samherja við Stað,“ segir Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri Skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, í samtali við Víkurfréttir.