Samþykkir úthlutun byggðakvóta í Garði
Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið hefur fallist á umsókn Sveitarfélagsins Garðs um úthlutun byggðakvóta. Alls er úthlutað 107 þorskígildistonnum til sveitarfélagsins.
Bæjarstjórn Garðs hefur samþykkt afgreiðslu bæjarráðs þar sem lagt var til að úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa verði með sama hætti og var á síðasta fiskveiðiári.
50% úthlutaðs byggðakvóta verði skipt jafnt milli þeirra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 605/2015 og lönduðu botnfiskafla á fiskveiðiárinu 2014/2015 og 50% verði skipt hlutfallslega, til sömu skipa, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið á tímabilinu 1. sept. 2014 til 31. ágúst 2015. Jafnframt er ítrekað að þar sem ekki er löndunarhöfn í Garði verði fullgilt að fiskiskip landi afla í öðru sveitarfélagi, en til vinnslu í Garði.