Samþykkir ekki skert lífsgæði íbúa

-Forseti bæjarstjórnar mun leggja fram myndbandsupptökur sem sýna afleiðingar mengunarinnar

„Það var engin ánægja fólgin í því að ganga út í fallegan síðsumarmorgun og upplifa þá ólykt sem lagði yfir bæinn okkar. Þetta er farið að valda fjölda íbúa talsverðum vandræðum, sviða í augum, særindum í hálsi, öndunarerfiðleikum og margir missa jafnvel röddina þegar verst lætur,“ er meðal þess sem Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, skrifar í færslu sinni á Facebook í dag, en íbúar hafa látið í sér heyra vegna mikillar lyktar í bænum síðustu daga frá kísilveri United Silicon í Helguvík.

Bæjarstjórn mun funda með Umhverfisstofnun í næstu viku en þar mun Guðbrandur leggja fram myndbandsupptökur sem sýna svart á hvítu afleiðingar mengunarinnar frá kísilverinu. Í samtali við Víkurfréttir segist Guðbrandur nú þegar hafa lagt fram kvörtun til Umhverfisstofnunar, sem hann segist gera oft, bæði sem íbúi og sem bæjarfulltrúi.

„Ég mun undir engum kringumstæðum samþykkja það, hvorki frá þessu fyrirtæki né öðrum, að lífsgæði íbúa verði skert til lengri tíma. Þessi mengun núna er að gera það svo ekki verður um villst og það þarf að stöðva.“