Samstarfsamningur um nýsköpun
Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur og Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hafa undirritað samstarfssamning. Með honum styður Kadeco við nýsköpun á háskólastigi en það samræmist vel markmiðum Kadeco um uppbyggingu á frumkvöðlastarfsemi á þróunarsvæði félagsins.
Markmið samstarfssamningsins er að leggja áherslu á nýsköpun í sjálfbærni í orkumálum og hlúa enn betur að skjólstæðingum Innovit, sem þegar býður upp á sérhæfða ráðgjöf og fræðslu um stofnun og rekstur sprotafyrirtækja.
Kadeco mun bjóða uppá aðstöðu fyrir valin sprotafyrirtæki sem falla undir þennan flokk og veita ráðgjöf varðandi stofnun og rekstur nýrra orkufyrirtækja á námskeiðum og vinnustofum samhliða keppninni um Gulleggið 2009. Orkuverðlaun Kadeco verða svo veitt þeirri viðskiptaáætlun sem þykir bera hvað best vott um „Sjálfbæra nýsköpun“.
Kadeco verður jafnframt meðal bakhjarla og samstarfsaðila Innovit að Gullegginu 2009, árvissri frumkvöðlakeppni íslenskra háskólanema og þeirra sem hafa lokið námi sl. 5 ár. Keppnin veitir þátttakendum tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og móta þær.
Mynd: Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco og Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Innovit, undirrituðu samstarfssamninginn.