Samstarfinu lýkur með opnun vefsíðu
- Víðtæk áhrif og árangur Suðurnesjavaktarinnar.
Formlegu samstarfi Suðurnesjavaktarinnar er nú lokið en vaktin var sett á laggirnar í lok árs 2010 að ósk heimamanna til þess að efla og styrkja samstarf á sviði velferðarmála þvert á öll sveitarfélögin á svæðinu. Vaktin var hluti af starfsemi velferðarvaktarinnar sem starfar á vegum velferðarráðuneytisins. Í henni sátu fulltrúar lykilfólks í velferðarmálum á svæðinu m.a. allir félagsmálastjórarnir, fulltrúar frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Vinnumálastofnun, menntastofnunum, kirkjunni, stéttarfélögum, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sýslumanninum í Keflavík, Umboðsmanni skuldara, Íbúðalánasjóði, Rauða krossinum og velferðarráðuneytinu. „Þessu samstarfi er nú lokið en þeir sem komu að verkefninu eru sammála um að vaktin hafi reynst mikilvægur vettvangur til að tengja þá fjölmörgu á Suðurnesjum sem vinna að velferðarmálum og tengjast því með einum eða öðrum hætti. Samstarfið hefur einnig aukið þekkingu og vitund þeirra sem vinna á svæðinu um hvern annan og hver þeirra verkefni eru,“ segir Lovísa Lilliendahl, verkefnastjóri Suðurnesjavaktarinnar.
Frábært starf unnið gegn heimilisofbeldi
Meðal helstu verkefna Suðurnesjavaktarinnar yfir starfstímabilið voru áfangaskýrslurnar sem greindu vel frá stöðunni á svæðinu, sérstaklega hvað varðar atvinnuleysi, fjárhagsaðstoð, fjölda nauðungarsala og fleira. „Árvekniverkefnið gegn heimilisofbeldi er annað verkefni á vegum vaktarinnar sem hefur skilað góðum árangri. Suðurnesjavaktin stóð líka fyrir málþingi fyrir fagaðila á svæðinu og gefinn var út bæklingurinn Býrð þú við ofbeldi sem dreift var í öll hús á Suðurnesjum,“ segir Lovísa. Lögreglan og félagsþjónustur á svæðinu eigi einnig í mjög góðu samstarfi sem hefur vakið athygli víða um land. „Óhætt er að segja að öllum sem til þekkja til slíkra mála sé kunnugt um það frábæra starf sem verið er að vinna að hérna á Suðurnesjum gegn heimilisofbeldi.“
Vaktin lifir áfram í gegnum vefsíðu
Þrátt fyrir að starfi Suðurnesjavaktarinnar sé lokið mun vaktin þó lifa áfram í gegnum nokkur verkefni en hún hafði úr ákveðnu fjármagni að spila á sl. ári til þess að nýta til góðra verka á svæðinu. „Fulltrúar í Suðurnesjavaktinni, sem allir þekkja vel til þess hvernig styðja megi betur við samfélagið, komu með tillögur að verkefnum sem farið var yfir og voru nokkur verkefni valin. Meðal þeirra er upplýsingavefurinn www.sudurnesjavaktin.is en hann á að veita upplýsingar um þá grunnþjónustu sem er í boði fyrir íbúa á Suðurnesjum,“ segir Lovísa. Þar sé að finna upplýsingar um þjónustu á vegum sveitarfélaganna, upplýsingar um atvinnumál, framboð á íþrótta- og frístundastarfi, fjármál, menntastofnanir, samgöngur og fleira. Markmiðið með verkefninu sé að auðvelda íbúum á svæðinu að finna upplýsingar um allt sem tengist því að búa á svæðinu. „Vefurinn á einnig að henta þeim sem eru nýfluttir á svæðið og vilja vita hvert leita skuli eftir ákveðinni þjónustu. Með vefnum er vonast til þess að íbúar á svæðinu kynni sér betur þá þjónustu sem er í boði og verði þannig virkari íbúar í samfélaginu. Vefurinn er þó ekki alveg tæmandi en við lítum á þetta sem góða byrjun og vonandi er þetta verkefni sem getur haldið áfram að þróast,“ segir Lovísa.
Félagsleg einangrun rofin
Þá segir Lovísa að meðal annarra verkefna sem styðja á við sé kortlagning á sérfræðiþekkingu á svæðinu í tengslum við foreldrafærni en það er samstarfsverkefni félagsþjónusta á svæðinu, fræðsluskrifstofa og heilbrigðisstofnunar. „Að rjúfa félagslega einangrun kvenna er annað verkefni sem verður í umsjá Hjálpræðishersins og lýtur að því að ná saman konum á svæðinu sem af einhverjum ástæðum búa við félagslega einangrun. Þá fá þeir sem vinna með börnum sem búið hafa við heimilisofbeldi kennslu í viðtalsmeðferð fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi sem ætlað er að draga úr afleiðingum sem heimilisofbeldi getur haft á börn. Vinaverkefni á vegum Fjölbrautaskóla Suðurnesja er svo enn annað verkefni sem ákveðið var að styðja við ásamt öðrum minni verkefnum. Það er okkar von að þessi góðu verkefni komi til með að styðja vel við samfélagið okkar hér á Suðurnesjum,“ segir Lovísa að lokum.
VF/Olga Björt