Samstarf við sænskt slökkvilið
Tveir slökkviliðsmenn frá Lindesberg í Svíþjóð heimsóttu Brunavarnir Suðurnesja í síðustu viku. Markmið heimsóknarinnar var að auka samskipti og samstarf slökkviliðanna, meðal annars m.t.t. þjálfunarmála. Mennirnir tveir dvöldu á Íslandi í þrjá daga og notuðu tímann til að kynna sér starfsemi slökkviliða víða um land, m.a. á Akureyri, í Vestmannaeyjum og Reykjavík. Þeir skoðuðu m.a. útkallsstyrk, vinnufyrirkomulag og þjálfunarmál.Jón Guðlaugsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, vonar að þessi heimsókn sé upphaf á frekara samstarfi liðanna. Í Lindesberg er rekinn skóli, sem vel er útbúinn til verklegra æfinga, en slökkviliðsmenn víða úr heiminum sækja hann. „Við vonumst til að geta sent strákana okkar í skólann til þeirra í þjálfun og við sömuleiðis tekið á móti þeirra mönnum. Þetta er mjög spennandi verkefni sem býður upp á ýmsa möguleika“, sagði Jón.