Samstarf um leikskólapláss á milli sveitarfélaga?
– Vinnuhópur um framtíðarsýn í leikskólamálum í Sandgerði skilar skýrslu.
Vinnuhópur um framtíðarsýn í leikskólamálum í Sandgerði hefur m.a. lagt til að kannað verði hvort Reykjanesbær og Sveitarfélagið Garður séu reiðubúin til samstarfs í leikskólamálum. Markmiðið væri að auka val foreldra um uppeldisstefnu og að foreldrar geti sótt um leikskólapláss fyrir börnin sín í því sveitarfélagi sem best hentar með tilliti til atvinnu. Þetta kemur fram í skýrslu sem skilað hefur verið til bæjaryfirvalda í Sandgerði.
Þá leggur hópurinn til að gott samstarf Grunnskólans og Sólborgar verði eflt enn frekar með það í huga að elsti árgangur Sólborgar auki viðveru sína í grunnskólanum.
Bæjarráð hefur tekið fyrir framtíðarsýn vinnuhópsins og afgreitt tillögur hópsins. Þar segir m.a. að gott samstarf grunnskólans og Sólborgar verði eflt enn frekar með það í huga að elsti árgangur Sólborgar auki viðveru sína í grunnskólanum, var vísað til skoðunar hjá stjórnendum skólastofnananna tveggja. Ekki er að sjá sérstaka afgreiðslu á hugmynd um samstarf við Reykjanesbæ og Garð aðra en þá að bæjarráð tekur undir með vinnuhópnum um að halda þurfi umræðu um framtíðarsýn í leikskólamálum opinni.