Samstarf um að hefta útblástur frá stóriðju
Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja hf., Háskóli Íslands og Norðurál hf. gerðu í dag með sér samkomulag um að vinna saman að því að finna leiðir til að hefta útblástur frá stóriðju. Saman hyggjast þessir aðilar þróa aðferðir til að safna koltvísýringi úr útblæstri álvera og annað hvort nýta hann eða binda öðrum efnum t.d. í jarðlögum. Með því væri dregið úr gróðurhúsaáhrifum starfseminnar.
Háskóli Íslands mun leggja til samstarfsins fræðilega undirstöðu og verkefnisstjórn fyrsta hluta verkefnisins. Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja og Norðurál leggja verkefninu til fjármagn, tæki og búnað.
Aðilar viljayfirlýsingarinnar stefna að því að ljúka samningum um verkefnin fyrir lok mánaðarins og líklegt er að fleiri aðilar komi að samstarfinu, þar á meðal sveitarfélög og erlendir háskólar.
Þróaðar hafa verið kenningar um að hægt sé að binds koltvísýring úr útblæstri eða úr andrúmslofti til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Á alþjóðlegum vettvangi hefur mjög verið horft til koltvísýringsverkefna hér á landi. Á dögunum hlotnuðust einum samstarfsaðila Íslendinga, Wallace S. Broeckner, virtustu jarðvísindaverðlaun heimsins, Crafoordverðlaunin, sem Sænska vísindaakademían veitir. Þegar Broeckner, sem starfar við Columbia- háskólann, var staddur hér á landi á síðasta ári sagði hann í fyrirlestri í Háskóla Íslands að hann teldi Íslendinga geta orðið frumkvöðla í þróun á bindingu koltvísýrings.
Undirritun viljayfirlýsingarinnar fór fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Undir hana rituðu Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, Júlíus Jónsson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri Norðuráli og Guðlaugur Þ. Þórðarson stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Mynd: Tölvuteikning af væntanlegu álveri í Helguvík