Samstaða Suðurnesjanna væntanlega aldrei verið mikilvægari
segja bæjarfulltrúar B- og D-lista í Grindavík sem vilja kaupa í fasteignafélagi Keilis
Bæjarráð Grindavíkur hefur lagt til við bæjarstjórn að samþykkja að Grindavíkurbær kaupi hlut í fasteignafélagi Keilis eins og lagt er upp með í gögnum málsins. Settir eru fyrirvarar um samþykki Kadeco og allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum svo og sjálfbærni skólans til framtíðar. Forsenda fyrir kaupunum er að langtímasamningur við mennta- og menningarmálaráðuneyti um leigu fasteignarinnar liggi fyrir. Bæjarstjórn Grindavíkur samþykkti tillögu bæjarráðs með fimm atkvæðum með þeim fyrirvörum sem þar eru. Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins, og Helga Dís Jakobsdóttir frá Rödd unga fólksins greiddu atkvæði á móti og bókuðu báðar um málið.
Í bókun Hallfríðar segir:
„Miðflokkurinn í Grindavík hafnar því að leggja til 25 milljónir til kaupa á fasteignafélagi Keilis þrátt fyrir þá varnagla sem settir hafa verið fyrir kaupunum.
Greinargerð
Samkvæmt ársreikningum sem aðgengilegir eru á heimasíðu Keilis er umrædd fasteign færð á milli félaga fyrir um tveimur árum síðan og var kaupverð hennar þá rúmlega 400 milljónir. Í dag er verðmat þessarar sömu fasteignar verðlagt annars vegar upp á rúmar 800 milljónir og hins vegar upp á rúmar 1.100 milljónir. Það þýðir að verðlag eignarinnar samkvæmt verðmati hefur því margfaldast á þessum árum sem fylgir ekki annarri verðþróun húsnæðis á svæðinu.
25 milljónir eru veruleg fjárhæð af sameiginlegum sjóði bæjarbúa og slíkar fjárhæðir á ekki að reiða fram nema að vel ígrunduðu máli. Ábyrgð okkar bæjarfulltrúa er töluverð þegar kemur að þessum sameiginlega sjóði og á þeim forsendum byggjum við ákvörðun okkar. Þau gögn sem lögð hafa verið fram máli þessu til stuðnings gefa ekki tilefni til að ætla að rekstur skólans geti orðið sjálfbær sér í lagi þar sem framundan er mikill óvissutími. Þrátt fyrir að fasteignafélagið verði sjálfstæð eining þá er grundvöllur fasteignafélagsins sá að skólinn verði sjálfbær.
Það verður að segjast eins og er að Grindavíkurbær hefur lítilla sem engra hagsmuna að gæta annarra en samfélagslegra. Þó má með sanni segja að Grindvíkingar nýta sér skólavist í Keili en það gera þeir einnig í fjölmörgum skólum landsins. Það er einnig vert að benda á að rekstur framhaldsskóla er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga og teljum við fjárfestingar í húsnæði slíkrar starfsemi í öðru sveitarfélagi ekki eiga að vera verkefni okkar.“
Undir þetta ritar Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins.
Bókun Helgu Dísar hljóðar svona:
„Rödd unga fólksins telur forsendur vera ófullnægjandi til þess að eyða almannafé í þessa fjárfestingu að svo stöddu,“ segir í bókun Helgu Dísar Jakobsdóttur, bæjarfulltrúi Raddar unga fólksins.
Bæjarfulltrúar B- og D-lista bókuðu um stuðning sinn við málið þar sem segir:
„Rekstur Keilis snertir Grindavíkurbæ ekki beint en erfitt er að horfa framhjá því ef störf hátt í hundrað manna ásamt afleiddum störfum þurrkast út. Um eitt hundrað Grindvíkingar hafa sótt nám og aflað sér menntunar undanfarin ár hjá Keili. Nauðsynlegt er að halda menntunarstigi á Suðurnesjum uppi, sérstaklega á þessum viðsjárverðu tímum sem við búum við núna. Verið er að fjárfesta í fasteign sem hægt verður að selja til baka síðar. Samstaða Suðurnesjanna hefur væntanlega aldrei verið mikilvægari, því styðja fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að hlutur verður keyptur í skólahúsnæði Keilis svo lengi sem fyrirvarar eru uppfylltir.“