Samstaða í bæjarstjórn um að taka yfir rekstur HSS
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar harmar þá stöðu sem nú er komin upp hvað varðar rekstur Heilbrigðistofnunar Suðurnesja og lýsir sig tilbúna til viðræðna við stjórnvöld og sveitarfélög á Suðurnesjum um aðkomu eða yfirtöku á rekstri HSS þannig að tryggt verði að íbúar á Suðurnesjum muni í framtíðinni njóta almennrar heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra landsmenn. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur mikilvægt að leitað verði allra leiða til að tryggð verði sú þjónusta sem nú er veitt og að tekið sé fullt tillit til hagsmuna skjólstæðinga og starfsmanna stofnunarinnar til framtíðar. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var af öllum bæjarfulltrúmum í Reykjanesbæ nú áðan.
Þá segir jafnframt að nú þegar verði gengið til slíkra viðræðna og óvissu um framtíðarrekstur HSS eytt.
Nauðsynlegt er að stefna og framtíðarsýn HSS mótist af þörfum þess samfélags sem stofnuninni er ætlað að sinna. Með aðkomu eða samningi sveitarfélaganna við ríkið treystum við starfsfólki og stjórnendum HSS til að móta þá stefnu út frá faglegum og fjárhagslegum sjónarmiðum og reka HSS með góðri, nauðsynlegri þjónustu við íbúa.
Ítrekað hefur komið fram að 22 þúsund íbúar á Suðurnesjum hafa um árabil þurft að búa við skert framlög ríkis á sviði heilbrigðismála og taka á sig sparnaðarkröfur langt umfram kröfur á önnur svæði. Í fyrra var heilsugæslu í Sandgerði, Garði og Vogum lokað. Engin sambærilega stór samfélög á landinu eru án heilsugæslu.Góð heilbrigðisþjónusta er hornsteinn góðs samfélags. Íbúar á þessu svæði sætta sig ekki við að hér verði veitt slök heilbrigðisþjónusta. Við sættum okkur ekki lengur við að stefnuleysi og handahófskenndar ákvarðanir um fjármögnun HSS ráði för.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill með samþykkt þessarar bókunar undirstrika að nú er þörf á að leita nýrra leiða við rekstur stofnunarinnar og að nauðsynlegt er að það sé gert á þann hátt að um það ríki einhugur í samfélaginu. Að kannaðir verði allir þeir möguleikar sem í boði eru til að mynda með aukningu á sértekjum stofnunarinnar s.s með frekari nýtingu skurðstofanna í huga.
Þá segir í bókuninni að bæjarstjórn Reykjanesbæjar telji nauðsynlegt að tryggt sé að þjónusta skurðstofa verði áfram rekin í þágu íbúa, fyrir fæðandi mæður jafnt sem aðra. Skurðstofur HSS hafa í áranna rás bjargað mannslífum.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar krefst þess og vill leggja sitt af mörkum til þess að nú þegar verði fundin lausn á þeim vandamálum sem HSS hefur undanfarin ár átt við að etja og að bundin verði endir á þá óvissu sem nú ríkir. Hún er óásættanleg, hvort heldur sé litið til starfsmanna sem nú þurfa að taka við uppsögnum með tilheyrandi vanlíðan, eða þeirra sem boðuðu skerðingar á þjónustu sem íbúar á Suðurnesjum standa nú gagnvart. Um það er samstaða í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, segir í bókuninni.