Samstaða – sókn til nýrra sigra
– Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, flutti hátíðarræðuna í Reykjanesbæ þann 1. maí 2016.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, flutti ræðu dagsins í Reykjanesbæ í tilefni af 1. maí. Þátttaka í hátíðarhöldum 1. maí í Reykjanesbæ var góð en boðið var upp á fjölbreytta dagskrá í Stapa.
Ræða Ólafíu er birt í heild sinni hér að neðan.
Kæru félagar, til hamingju með daginn !
Að baki er erfiður vetur í kjarabaráttunni og meiri átök en við höfum átt að venjast á síðustu árum og áratugum. Tvívegis var skrifað undir kjarasamninga á síðustu tólf mánuðum og jafnoft voru þeir samþykktir – í bæði skiptin eftir átök og jafnvel aðgerðir. Sá fyrri var undirritaður í skugga verkfallsaðgerða og sá síðari í kjölfar umdeildrar ákvörðunar gerðardóms.
Ef við lítum eitt ár aftur í tímann verð ég að viðurkenna að ég var nokkuð vongóð og jafnvel þokkalega sátt þegar við undirrituðum samning á almenna markaðnum undir lok maí á síðasta ári. Verkföll þúsunda og yfirvofandi aðgerðir tugþúsunda til viðbótar knúðu atvinnurekendur að samningaborðinu og stjórnvöld til að lofa bót og betrun. Í samningnum var áhersla lögð á að vernda stöðu þeirra lægst launuðu en verja jafnframt kaupmátt launafólks með millitekjur. Það er það sem kjarasamningar snúast alltaf um - að tryggja launafólki sómasamleg laun og vernda kaupmáttinn. Stjórnvöld komu að þessum samningi með loforð upp á ermina um breytingar á skattaumhverfinu og hinu félagslega húsnæðiskerfi. Þessi samningur var samþykktur í atkvæðagreiðslum aðildarfélaganna og við önduðum léttar.
Þetta ákvæði stóðst hins vegar ekki – eins og við munum úrskurðaði gerðardómur í ágúst á síðasta ári meiri launahækkanir til ákveðinna hópa opinberra starfsmanna en samið var um í kjarasamningnum. Niðurstaða dómsins var alveg úr takti við þær væntingar og vonir sem samningurinn á almenna vinnumarkaðanum fól í sér. Ég gagnrýndi vinnubrögð gerðardóms í kjölfar þessa úrskurðar og ég stend við þá gagnrýni. Gerðardómi bar að hafa hliðsjón af fyrri kjarasamningum og almennri launaþróun á vinnumarkaði. Það gerði hann ekki. Forsendur dómsins voru rangar og niðurstöðurnar líka. Við þessu urðum við að bregðast og það gerðum við.
Við tóku strangar viðræður í aðdraganda endurskoðunar samninganna sem átti að vera í febrúar á þessu ári. Í upphafi árs sáum við loks til lands og skrifað var undir samning síðari hluta janúar. Þessi samningur felur í sér þá launaleiðréttingu sem gerð var krafa um vegna úrskurðar gerðardóms. En hann felur í sér meira, hann felur í sér ákveðin skref í átt að jöfnun lífeyrirsréttinda á almenna og opinbera vinnumarkaðnum, en það er baráttumál okkar til margra ára. Stuðningur við samninginn var afgerandi í atkvæðagreiðslu um hann meðal aðildarfélaganna.
En þið hafið væntanlega tekið eftir því að ég hef lítið rætt um aðkomu ríkisvaldsins að kjarasamningunum. Nú er hins vegar komið að þeirri umræðu. Húsnæðismálin vógu þungt við gerð síðustu tveggja kjarasamninga. Úttekt Alþýðusambandsins sýnir afar erfiða stöðu þeirra tekjulægri á húsnæðismarkaði og ljóst að leigjendur eiga mjög undir högg að sækja. Tæplega fimmtungur leigjenda greiðir 40% eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði sem er verulega íþyngjandi – almennt er talið eðlilegt að 20 – 25% fari í slík útgjöld. Tekjulægri heimili eru mun líklegri til að vera á leigumarkaði. Húsnæðiskostnaður fjórðungs tekjulægsta hópsins er íþyngjandi og stór hluti einhleypra og einstæðra foreldra stendur í sömu sporum. Þetta er staðan á Íslandi í dag.
Í tengslum við gerð kjarasamninga á síðasta ári skuldbundu stjórnvöld sig til að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði, þau lofuðu því að ráðast í átak til að byggja á þriðja þúsund íbúða fram til ársins 2019. Kjarasamningurinn var byggður á grundvelli loforða stjórnvalda um nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi og nýtt húsnæðisbótakerfi – frumvörp sem átti að samþykkja fyrir lok febrúar á þessu ári.
Það gekk ekki eftir og við gerð samninga í upphafi þessa árs var ríkisstjórninni gefinn gálgafrestur til eins árs – verði frumvörp félagsmálaráðherra um húsnæðismálin ekki afgreidd sem lög án verulegra efnisbreytinga í febrúar á næsta ári eru samningar lausir. Lengri tíma höfum við ekki.
Í tilefni af 100 ára afmæli Alþýðusambands Íslands á þessu ári skrifuðu ASÍ og Reykjavíkurborg undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á eitt þúsund íbúðum á næstu fjórum árum. Markmiðið er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga. Þetta framtak er lofsvert en er tilkomið vegna þess neyðarástands sem ríkir í húsnæðismálum þeirra sem lægstu tekjurnar hafa. Það ástand skrifast á stjórnvöld. Og um það snúast þau loforð sem stjórnvöld gáfu í tengslum við gerð kjarasamninga.
Staðan í húsnæðismálunum endurspeglar kannski þá stöðu sem við sjáum í pólitíkinni í dag – óvissu og vantraust. Umræða síðustu vikna um skattaskjól og aflandsfélög varð til þess að stjórn VR sendi frá sér ályktun. Þar fer félagið fer þess á leit við stjórnvöld að öll gögn um íslensk félög í skattaskjólum verði rannsökuð og – það sem skiptir hér öllu máli – að við, almenningur í þessu landi, verðum upplýst um framgang þeirrar rannsóknar. Við getum ekki lifað við feluleik og leyndarmál – hrunið skildi okkur eftir með skert traust til þeirra sem valdið hafa og það er undir þeim komið að byggja það upp á nýjan leik. Ég fagna því að efna eigi til alþingiskosninga í haust og vona að við fáum frambjóðendur sem við getum treyst fyrir því erfiða og umfangsmikla verkefni sem bíður okkar.
Kæru félagar,
Í ár göngum við saman þann 1. maí undir slagorðunum Samstaða – sókn til nýrra sigra. ASÍ fagnar hundrað ára afmæli í ár. Samstaða gerði verkalýðshreyfinguna að mikilvægasta geranda í baráttu launafólks fyrir bættum kjörum og réttindum. Samstaða er styrkur eins og berlega kom í ljós þegar átök geisuðu á vinnumarkaði eins og ég fjallaði um hér áðan.
Á þessum degi minnumst við sögunnar og fórna þeirra sem á undan okkur gengu. Við ítrekum mikilvægi þess að verja þau réttindi sem við höfum en okkur er jafnframt ljóst að baráttunni er langt í frá lokið. Jafnrétti kynjanna hefur enn ekki verið náð og við munum halda áfram þeirri baráttu. Við munum áfram berjast fyrir því að tryggja velferð og mannsæmandi lífskjör öllum til handa. Við viljum að allir fái notið þegar vel gengur og að haldið sé utan um þá sem minnst mega sín þegar á móti blæs.
Sókn til nýrra sigra er drifkraftur verkalýðshreyfingarinnar. Dagurinn í dag gefur okkur tækifæri til að sýna mátt okkar og megin.
Stöndum saman – samstaðan er okkar styrkur !