Samningurinn er vítamínsprauta
-Starfsemi Fisktækniskóla í Grindavík tekið opnum örmum
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Ólafur Þór Jóhannsson, formaður stjórnar Fisktækniskóla Íslands, undirrituðu í vikunni samning til eins árs um kennslu í fisktækni í tilraunaskyni. Kennslan fer að mestu fram í Grindavík en einnig er unnið að uppbyggingu náms í fisktækni víða um landið í samstarfi við heimamenn á hverjum stað.
Skólinn hefur verið í biðstöðu en nýundirritaður samningur þýðir að nú er grundvöllur skólans traustur þar til starfsemin kemst á fjárlög. „Það eitt og sér að ráðherra skuli heimsækja okkur er heilmikil vítamínsprauta í okkar starf,“ segir Nanna Bára Maríasdóttir sviðstjóri og kennari við skólann. Hún segir mikla kynningarvinnu liggja að baki en nú sé aðsókn í skólann að aukast og hróður hans um leið. Hugmyndafræði skólans er að sögn Nönnu sú að fólk sé ekki „bara“ að vinna í fiski. „Flestir sem starfa í þessum geira hafa mikinn eru áhugasamir um samhengið í vinnslunni, nýtingu hráefnis og verðmæti afurðanna. Fólkið vill taka þátt í því að fyrirtækin beri sig vel og skili lúxus matvöru til viðskiptavinanna. Flestir gera sér grein fyrir hversu miklu máli sjávarútvegurinn skiptir fyrir þjóðarbúið,“ segir Nanna Bára.
Þingmenn svæðisins óvinnandi blokk
Nanna segir sjávarútveginn hafa tekið skólanum opnum örmum. Sama hvert á land leitað sé. „Við höfum aldrei komið að lokuðum dyrum með nemendur,“ segir Nanna en unnið er að því að bjóða upp á námið á landsvísu, jafnt bóklegt og verklegt. Skólinn er staðsettur í Grindavík og hafa heimamenn tekið starfseminni afar vel. „Sem dæmi má nefna að þingmennirnir hérna frá Suðurnesjum hafa staðið mjög þétt við bakið á okkur, sem og bærinn. Illugi (Gunnarsson) hafði einmitt á orði við undirskriftina að það væri óvinnandi blokk sem stæði við bakið á okkur,“ segir Nanna og hlær.
Skólinn sem hefur verið starfandi frá árinu 2010 er á framhaldsskólastigi. Þeir sem mennta sig sem fisktæknar geta síðar bætt við sig annað hvort á gæðabraut eða svokallaðri Marelsbraut.
Fisktæknar kynna sér fiskvinnslu, sjómennsku og fiskeldi og geta því gengið að störfum víða í sjávarútvegsgeiranum. Til stendur að stofna jafnvel háskólabrú. Einnig er skólinn í samstarfi við skóla í Stavanger í Noregi sem er tilbúinn að taka við nemendum hvenær sem er. Skólinn getur tekið á móti 30 nemendum og nú er nánast allt að fyllast fyrir haustönn. Nanna segir nemendur vera á öllum aldri og sem dæmi nefnir hún að síðasti nemandi sem var skráður inn hafi verið 53 ára kona. Nemendur sem klárað hafa skólann eru eftirsóttir í vinnu og oft er þeim boðin vinna á meðan á skólagöngu stendur.
Alls starfa fjórir starfsmenn hjá skólanum og þeir eiga fullt í fangi með að halda öllum boltum á lofti. Sjálf hefur Nanna, sem er menntuð frá gamla Fiskvinnsluskólanum en einnig hefur hún B.A í félagsráðgjöf og kennslufræðum, kennt um 1500 manns bara á síðasta ári víðs vegar um landið á fiskvinnslunámskeiðum, þar af um 400 manns á Suðurnesjum.