Samningur um eflingu menntunar í ferðaþjónustu
Ferðamálasamtök Suðurnesja og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum skrifuðu á dögunum undir samstarfssamning um að efla menntun á meðal starfsfólks í ferðaþjónustu á Suðurnesjum og auka þar með fagmennsku i greininni.
Í tilefni af því voru Sævar Baldursson formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja og Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar beðin um að útlista hvað felst í samningnum og hvar ferðaþjónustan á Suðurnesjum stendur í dag.
„Þetta samstarf er afar ánægjulegt fyrir Miðstöð símenntunar en við höfum verið að sinna fræðslu í ferðaþjónustunni undanfarin ár og m.a. hafa útskrifast leiðsögumenn frá okkur, Færni í ferðaþjónustu hefur verið í boði hjá okkur undanfarin ár og fjölmörg stutt námskeið m.a. fyrir sumarstarfsfólk. Við höfum mikinn hug á að efla þekkingu innan greinarinnar og auka þar með gæði hennar. Ferðaþjónustan er mjög mikilvæg atvinnugrein og ekki síst hér á svæðinu og mikilvægt að við getum nýtt hana sem mest. Góð þekking á svæðinu eykur eyðslu ferðamanna en mikilvægt er að geta leiðbeint um hvar séu flottir og áhugaverðir staðir, hvar veitingastaðir eru, hvaða afþreying sé í boði svo dæmi séu tekin, ef við beinum öllum til Reykjavíkur þá fer líka gjaldeyrinn þangað“ segir Guðjónína.
Samkvæmt Sævari hefur mikið skort á menntunartækifæri í ferðaþjónustugreininni og því ber að fagna að MSS hafi átt frumkvæði að aukinni menntun í ferðaþjónustu sem verður til að byrja með stutt og hnitmiðuð námskeið og seinna meir stærri námskeið og námsleiðir. FSS hvetur alla aðila sem á beinan eða óbeinan hátt tengjast ferðaþjónustu að kynna sér þessar námsleiðir.
Sævar bendir á að það eru til aðilar í ferðaþjónustu án þess að gera sér grein fyrir því, það er starfsfólk bensínafgreiðslustöðva, veitingastaða, dekkjaverkstæða og fleiri staða sem ferðamenn koma inn á og þessa aðila þarf að virkja til að aðstoða við að bæta ferðaþjónustu og afkomu á svæðinu með því að beina ferðamanninum inn í bæjarfélögin og kaupa þar þjónustu.
„Ferðaþjónustuaðilar standa sig misvel og vantar að vinna betur saman að sameiginlegum verkefnum til að auka sinn hlut af kökunni. Það má segja að við eigum mörg ónýtt tækifæri sem hægt er að vinna að í sameiningu og auka þarf fagmennsku i greininni, ásamt því að auka upplýsingastreymi til ferðamanna, vekja athygli þeirra á Reykjanesinu áður en til landsins er komið. Brýnustu verkefnin sem framundan eru, er að efla afþreyingu og að mynda „pakka“ til að selja ferðamönnum, einnig þarf að huga að starfsmenntun og meiri fagmennsku í samskiptum við ferðamenn og efla markaðsetningu svæðisins yfir heildina með samvinnu við Markaðstofu Reykjaness en það fyrirkomulag verður kynnt ferðaþjónustufyrirtækjum á næstunni“ segir Sævar.