Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samningar fæla nemendur frá iðnnámi
Fimmtudagur 2. október 2014 kl. 09:29

Samningar fæla nemendur frá iðnnámi

- ansi hart ef að vinnumarkaður er orðinn hræddur við að of margir séu í faginu, segir Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja telur að breyta verði kerfinu í iðnnámi en aðsókn í það hefur minnkað verulega á landinu öllu. Undanfarið hefur talsvert verið fjallað um nemendur sem stunda iðnnám og erfiðleika þeirra við að komast á samning. Í FS sé aðsóknin þó svipuð og í fyrra í verk- og starfsnámi. „Nemendur sem vilja læra hárgreiðslu komast að öllum líkindum ekki á samning. Það fælir nemendur frá náminu þegar þeir standa frammi fyrir því að geta ekki lokið sínu námi.“ Kristján hefur áhyggjur af viðhorfi vinnumarkaðarins. „Eitthvað verður að gera. Það er orðið ansi hart ef að vinnumarkaður er orðinn hræddur við að of margir séu í faginu og að markaðurinn beri ekki alla starfsnemana.“


Hafa misst samning vegna verkefnaskorts
Kristján segist vita til þess að iðnnemar í trésmíði hafi jafnvel misst samning sinn einfaldlega vegna þess að ekki voru nægileg verkefni til staðar. Þá hafi fyrirtæki veigrað sér við því að taka inn nema vegna þess að þau sáu ekki fram á að hafa nægileg verkefni fyrir nemana allan námstímann. Kristján sér fyrir sér að nemar þurfi ekki að taka allan samningstímann hjá sama aðilanum heldur gætu þeir farið á milli fyrirtækja og starfað í skemmri tíma. „Svo þegar hjólin fara að snúast þá eru einfaldlega ekki til nægilega margir smiðir. Það hafði ekki verið hægt að mennta þá vegna þess að þeir komust ekki á samning. Þá var enginn að sækjast í það að læra smíðar. Um leið og framkvæmdir í byggingariðnaði minnkuðu þá hrapaði aðsóknin í smíðar, þær eru hvað viðkvæmastar fyrir þessum sveiflum,“ segir Kristján.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er bara það sem við fáum úr að spila og verðum að lifa með því“

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er ódýrasti blandaði framhaldsskólinn á landinu, sem er þá með bæði verklegt nám, bóklegt og starfsbrautir. Ef rýnt er í þá fjármuni sem skólinn er að fá kemur í ljós að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2015 dragast ígildi nemenda saman um 42 og því verða 882 ígildi á næsta skólaári. Þegar talað er um ígildi er miðað við nemendur í fullu námi sem skila 17,5 einingum á önn. „Þetta er bara það sem við fáum úr að spila og verðum að lifa með því,“ segir skólameistarinn. Kristján segist reglulega kvarta til yfirvalda um aukið fé en sjaldan verði hann var við viðbrögð. „Það er eitt að kvarta en annað að fá skýringu á þessu, ég hef ekki fengið nein svör sem ég er að kaupa. Við hefðum vissulega viljað fá meiri framlög á hvert ígildi nemanda.“ Kristján segir árganga einnig vera að minnka og svo verði áfram næstu ár.
 

Flestallir sem sóttu um fengu skólavist komust að núna, nema þeir sem ekki hafa verið að skila síðustu annir og hafa jafnvel sagt sig úr námi. Eins fá margir sem eru yfir 25 ára aldur ekki inn í skólann, yngri nemendur ganga fyrir. Þeir sem eldri eru er bent á önnur úrræði til þess að ljúka framhaldsskólanámi. Kvöldskóli sem sóttur var af eldri nemendum var lagður niður fyrir nokkrum árum í FS en það kom til vegna niðurskurðar og sparnaðar. Nú sækja þeir nemendur t.d. til Keilis á háskólabrú, MSS eða álíka aðila. Kristján segir að víða sé verið að skera niður og m.a. í fjarnámi í framhaldsskólum, en þá þjónustu nýta eldri nemendur einnig í miklum mæli.


Færri komast að en vilja á hraðbraut

Það er breiður hópur nemenda sem sækir FS. Segja mætti að talsvert sé í boði fyrir alla þá flóru. Meðal þess sem boðið er upp á er afreksbraut, eins konar hraðbraut þar sem nemendur geta lokið stúdentsprófi á styttri tíma en ella. Boðið hefur verið upp á þennan kost í stuttan tíma en Kristján segir hraðbrautina vera að festa sig í sessi, nú komist færri að en vilja. Núna stunda um 25 nemendur nám í skólanum á þessari braut og klára þá nám á þremur eða þremur og hálfu ári. Eins eru nemendur í grunnskólum á Suðurnesjum duglegir að sækja tíma í Fjölbrautaskólanum. Kristján segir rúmlega 100 manna hóp grunnskólanema sækja tíma í skólanum á þessari önn og sækja sér einingar. „Að okkar mati þá skiptir þetta miklu máli. Þarna er mikil hvatning fyrir nemendur að takast á við meira krefjandi efni.“
 

Gott samstarf við grunnskóla

Ágætis samstarf er milli FS og grunnskóla á svæðinu. Reglulega er fundað og farið yfir stöðuna til að minnka megi þrepið á milli grunn- og framhaldsskólanáms. Kristján segir að FS taki saman og greini einkunnir nemenda á fyrsta ári eftir grunnskólum á svæðinu. Síðan hafa niðurstöðurnar verið afhentar stjórnendum grunnskólanna, til þess að þeir geti séð hvernig þeirra nemendur eru að koma undirbúnir í framhaldsskóla. Þetta hefur verið við lýði undanfarin tvö ár og reynst mjög vel enda sé það sameiginlegt markmið að efla skólastarf á svæðinu.