Sammála um mikilvægi þess að rækta mannlífið í Garðinum
Íbúar í Garði fjölmenntu á hugmyndafund sem umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Garðs stóð fyrir í síðustu viku. Tóku fundarmenn virkan þátt í umræðum og hugmyndaflugi sem nýta á við gerð aðgerðaráætlunar í anda Staðardagskrár 21.
Á fundinum var rætt um atvinnulíf, samgöngur og skipulagsmál og auðvitað umhverfismál af ýmsum toga menningu, útivist, íþróttir, tómstundir og æskulýðsmál. Markmið fundarins var meðal annars það að leita eftir nýjum hugmyndum frá íbúum Garðs auk þess sem staða mála í dag var rædd. Fundargestir svöruðu einnig spurningunni: Hvað skiptir mestu máli varðandi ímynd Garðs til framtíðar? -Hver eru mikilvægustu gildin og hver er framtíðarsýnin, Garður árið 2030?
Í frétt á vefsíðu Garði segir að margar góðar hugmyndir hafi verið ræddar en þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að rækta mannlífið í Garðinum, auka samstöðu og samkennd meðal íbúa. Allar hugmyndir sem fram komu verða nýttar og settar fram í aðgerðaráætlun fyrir Garðinn en fleiri hugmyndafundir verða haldnir á næstu mánuðum.
Bæjarstjórn Garðs samþykkir áætlun í anda Staðardagskrár 21 og umhverfisnefnd sem heldur utan um starfið hefur samráð við bæjarstjórn um lokaútgáfu hennar. Áætlunin er unnin í þremur hlutum þar sem staða mála í dag er skoðuð, markmið sett og verkefni eða hugmyndir skráðar. Framkvæmd verkefna er svo ákveðin í svokallaðri framkvæmdaáætlun þar sem því er lýst hver ber ábyrgð á verkinu, hvernig og hvenær stefnt er að þvi að framkvæma það og hver tilgangur verkefnisins er.