Samkaup veitir styrki til góðra mála
Samkaup hf úthlutaði í gær styrkjum til góðra málefna, samtals 900 þúsund krónum sem skiptust á fimm aðila.
Kvennakór Suðurnesja, sem er elsti starfandi kvennakór landsins, hlaut 100 þúsund krónur til styrktar starfi kórsins, sem nýlega hefur tekið í notkun nýja kórbúninga og kemur fjárhæðin sér vel vegna þeirrar fjárfestingar.
Í hlut Grindavíkurkirkju komu 150 þúsund krónur en þar standa miklar framkvæmdir fyrir dyrum. Verið er að undirbúa kaup á nýju orgeli og samhliða þarf að gera breytingar á kirkjunni.
Björgunarsveitin Suðurnes hlaut 300 þúsund krónur til styrktar starfi sveitarinnar, sem hefur margoft sannað gildi sitt.
Dagný Gísladóttir hlaut 200 þúsund krónur vegna útgáfu minningarbókar um brunann í Skildi árið 1935.
Afreksmaðurinn Jóhann Rúnar Kristjánsson hlaut 150 þúsund krónur en kappinn er að undirbúa sig fyrir þátttöku á heimsmeistaramóti fatlaðra í borðtennis sem fram fer í Sviss síðar í þessum mánuði. Þá hefur Jóhann sett stefnuna á Olympíuleika fatlaðra í Peking árið 2008, en til þess þarf talsvert kostnaðarsaman undirbúning svo þessi fjárhæð kemur sér vel.
VF-mynd:elg