Samkaup styrkir enn stafræna teymið
Samkaup hefur ráðið fjóra nýja starfsmenn sem munu vinna að stafrænni uppbyggingu og þróun innan fyrirtækisins. Ráðningarnar eru liður í markvissri sókn Samkaupa í upplýsingatækni, sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið og mun halda áfram. Í upphafi árs var greint frá því að Albert Þór Kristjánsson hefði verið ráðinn forstöðumaður upplýsingatækni og stafrænnar þróunar hjá Samkaupum.
Nú hefur Þórdís Lilja Eiríksdóttir verið ráðin vörustjóri fjárhagskerfa, Sunna Ösp Þórsdóttir hefur tekið við stöðu vefstjóra, Ólafur Helgi Jónsson er nýr hugbúnaðarsérfræðingur. Þá hefur Andri Fannar Freysson hefur verið ráðinn sem Business Central leiðtogi á fjármála- og rekstrarsviði.
Þórdís Lilja Eiríksdóttir er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst með áherslu á verkefnastjórnun. Hún kemur til Samkaupa frá Árvakri, þar sem hún hefur starfað sem verkefnastjóri á fjármálasviði. Þar áður gegndi hún starfi innheimtustjóra hjá Sýn.
Sunna Ösp Þórsdóttir er vefhönnuður úr Vefskólanum, en hún nam einnig grafíska hönnun í Tækniskólanum. Áður en hún hóf störf hjá Samkaupum vann hún að stafrænni hönnun hjá Krýsuvík og einnig sjálfstætt að ýmsum hönnunarverkefnum, þar á meðal vefsíðu- og viðmótshönnun.
Ólafur Helgi Jónsson er með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Síðustu átta ár hefur hann starfað sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Valitor, síðar Rapyd Europe, þar sem hann lék lykilhlutverk í þróun og rekstri á nokkrum mikilvægustu kerfum fyrirtækisins.
Andri Fannar Freysson er með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann kemur til Samkaupa frá LS Retail, þar sem hann hefur komið að þróun á farsímalausnum fyrirtækisins.
„Það er mikið ánægjuefni að við séum að fá allt þetta hæfa fólk til starfa hjá okkur. Við höfum markvisst verið að sækja fram í stafrænni þróun og upplýsingatækni með það að markmiði að geta boðið betri þjónustu til okkar viðskiptavina. Á sama tíma erum við gífurlega stolt af vinnustaðnum Samkaupum og trúum því að við séum gott fyrirtæki til að starfa hjá. Ráðning þessa frábæra hóps er bæði liður í okkar stafrænu vegferð en einnig staðfesting á því að við séum á réttri vegferð sem eftirsóttur og góður vinnustaður. Ég hlakka til að takast á við verkefni framtíðarinnar með þau í teyminu,“ segir Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála‑ og rekstrarsviðs Samkaupa
Um Samkaup
Samkaup reka 60 verslanir víðs vegar um landið undir merkjum Nettó, Krambúðarinnar, Kjörbúðarinnar og Iceland. Hjá félaginu starfa um 1250 starfsmenn í rúmlega 660 stöðugildum.