Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samkaup hlýtur Jafnvægisvogina
Mánudagur 7. desember 2020 kl. 10:00

Samkaup hlýtur Jafnvægisvogina

Jafnvægi í kynjahlutfalli í hópi stjórnenda, verslunarstjóra og framkvæmdastjórn.

Félag kvenna í atvinnulífinu veitti nýlega Samkaupum Jafnvægisvogina. Tilgangurinn með Jafnvægisvoginni er að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi, að íslenskt atvinnulíf verði fyrirmynd jafnréttis og veita viðurkenningar og draga fram í sviðsljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar. Sökum Covid-19-faraldursins var viðurkenningin veitt rafrænt við hátíðlega athöfn. Launamunur samkvæmt endurúttekt á jafnlaunavottun er vart mælanlegur innan Samkaupa en keðjan rekur 61 verslun með rúmlega 700 stöðugildi.

„Við erum svo sannarlega stolt af þessari viðurkenningu. Samkaup hefur sett sér skýra stefnu í jafnréttismálum sem er órjúfanlegur hluti af heildarstefnu félagsins. Framkvæmdastjórn Samkaupa hefur skuldbundið sig í allri stefnumótun að stuðla að auknu jafnrétti. Starfsfólki er ekki mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar, fötlunar, skoðana eða annarra þátta,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, forstöðumaður framkvæmdastjóri mannauðsmála Samkaupa. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Starfsfólk Samkaupa er fjölbreyttur hópur sem vinnur út frá gildum fyrirtækisins og stefnu. Mikið er um starfsfólk í hlutastarfi en þar eru ungt fólk í námi stór hópur. Þá er einnig stór hópur sem hefur unnið lengi hjá fyrirtækinu en meðalstarfsaldur er í kringum fimm ár. Þá er talsvert af starfsfólki sem er komið á efri ár í starfi en á þess kost að vinna lengur en til sjötugs ef það kýs það og er elsti starfsmaður Samkaupa kominn á níræðisaldur. Þegar heildarfjöldi stjórnenda er skoðaður út frá kynjahlutföllum er jafnvægi á milli kynja mjög gott með 48% karla og 52% konur. Stærsti hópur stjórnenda félagsins er verslunarstjórar sem eru 62 talsins. Þegar litið er á kynjaskiptingu þar er jafnvægi gott með 47% karla og 53% konur. Þá hefur verið lögð áhersla á að fjölga sérstaklega konum í efsta stjórnendalagi félagsins og er í dag helmingur framkvæmdastjóra kvenkyns og forstjóri karlkyns en til viðmiðunar var árið 2018 var engin kvenkyns stjórnandi í framkvæmdastjórn.