Samið við Heiðarskóla um flippað kennsluefni
Samningur hefur verið undirritaður milli Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs og Heiðarskóla í Reykjanesbæ um að allt efni í stærðfræði 8. - 10. bekkja verði tekið upp til notkunar í speglaðri kennslu. Þá er í undirbúningi að taka upp þrjár aðrar kennslugreinar með sama hætti.
Á dögunum var opnuð heimasíða með kennsluefni í náttúrufræði ætlaður nemendum og kennurum í 8. - 10. bekk grunnskóla. Vefurinn er afurð grunnskólakennara og Keilis við þróun speglaðra kennsluhátta. Hægt er að skoða heimasíðuna á slóðinni www.flipp.is.
Óhætt er að segja að mikill áhugi skólafólks sé á að laga lærdómsferlið betur að nútímanum. Spegluð kennsla virðist geta þjónað þeim markmiðum vel og Ísland er sannarlega í forystu með þetta skemmtilega form á námi og kennslu.
Hægt er að kynna sér nánar speglaða kennsluhætti á heimasíðu Keilis á slóðinni www.keilir.net/flipp
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra vottuðu samninginn á milli Keilis og Heiðarskóla. VF-myndir: Hilmar Bragi