Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sunnudagur 27. apríl 2003 kl. 19:56

Samið um læknisþjónustu á Suðurnesjum

Samningar hafa náðst við heilugæslulækna á höfðuborgarsvæðinu um að þeir sinni læknisþjónustu á Suðurnesjum tímabundið sem verktakar. Enn er þó eftir að ganga endanlega frá samkomulaginu sem er milli Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Heilsugæslunnar í Reykjavík.Það er kunnara en frá þurfi að segja að mjög erfiðlega hefur gengið að manna stöður heilsugæslulækna á Suðurnesjum eftir að læknar hættu störfum þar í haust og snéru ekki aftur.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra fól fyrir skömmu settum landlækni yfir heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Lúðvík Ólafssyni, að finna lausn á málinu. Lúðvík, sem jafnframt er lækningaforstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, kynnti nokkru síðar tillögu um að yfirlæknar Heilsugæslunnar í Reykjavík og nágrenni væru tilbúnir að beita sér fyrir tímabundinni neyðarþjónustu heimilislækna á Suðurnesjum. Tillagan var um að Heilsugæslan tæki alfarið að sér rekstur Heilsugæslunnar á Suðurnesjum og að framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar þar kæmi hvergi nærri.

Framkvæmdastjórinn og sömuleiðis heilbrigðisráðherra höfnuðu með öllu þessum hugmyndum og lagði ráðherra fram aðra tillögu um að læknar á vegum Heilsugæslunnar í Reykjavík tækju að sér sem verktakar að annast læknisþjónustu suðurfrá. Einnig að skipuð yrði samstarfsnefnd sem skipuð yrði einum manni frá hvorri heilsugæslu og einum fulltrúa ráðuneytisins.

Samkvæmt upplýsingum Fréttastofu Útvarps náðist munnlegt samkomulag í gær á fundi forstjóra og lækningaforstjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík og framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og yfirlæknir um að höfðuborgarlæknarnir taki að sér í verktöku að manna tímabundið stöður á Suðurnesjunum eða þar til tekist hefur að fastráða lækna. Enn er eftir að hnýta lausa enda og halda viðæður áfram í næstu viku en gert er ráð fyrri að þeim ljúki með sameiginlegri yfirlýsingu stjórnenda heilsugæslanna tveggja. Rúv greindi frá.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024