Samið um jarðstreng frá Fitjum til Helguvíkur
– verður lagður næsta sumar
Landsnet hefur samið við þýska fyrirtækið Nexans um kaup á jarðstreng sem lagður verður milli Njarðvíkur og Helguvíkur og tengir kísilver United Silicon við raforkuflutningskerfið. Samkomulagið, sem hljóðar upp á tæplega 1,3 milljónir evra, var undirritað af aðstoðarforstjóra Landsnets og fulltrúum Nexans í dag.
Landsnet hefur gert samning við United Silicon um flutning raforku til kísilvers fyrirtækisins sem áformað er að reisa í Helguvík og er stefnt að því að tengingin verði komin í gagnið fyrir 1. febrúar 2016.
„Þessi samningur við Nexans er mjög hagstæður fyrir okkur og allt kapp verður nú lagt á að hraða framkvæmdum. Undirbúningur að byggingu nýs tengivirkis sem rís við hlið kísilversins við Stakksbraut í Helguvík er þegar hafinn og nú hefst vinna við undirbúning strenglagningarinnar,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets. Hann segir umræddar framkvæmdir mæta flutningsþörfum United Silicon á raforku en sú mikla uppbygging sem nú eigi sér stað á Reykjanesi, s.s. með uppbyggingu kísilvera, netþjónabúa og í líftækniiðnaði, kalli enn frekar á að fyrirhuguðum framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 verði hraðað.
Jarðstrengssamkomulagið við Nexans hljóðar upp á tæplega 1,3 milljónir evra og felur í sér kaup á um 9 km löngum 132 kílóvolta (kV) jarðstreng sem lagður verður milli tengivirkja Landsnets á Fitjum og í Helguvík. Strengurinn er með 1.600 mm2 heilum álkjarna og getur hann flutt um það bil 160 MW. Hann verður framleiddur í verksmiðju Nexans í Hannover og lagður sumarið 2015. Unnið verður að hönnun og undirbúningi strenglagningarinnar í nánu samráði við þýska fyrirtækið og mun það jafnframt sjá um allar tengingar.
Jarðstrengurinn mun liggja um land Reykjanesbæjar, Garðs og Keflavíkurflugvallar og er hann á aðalskipulagi sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir fleiri jarðstrengjum þar í framtíðinni.