Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Samið um jarðstreng frá Fitjum til Helguvíkur
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets og fulltrúar Nexans, Matthias Kirchner, framkvæmdastjóri landháspennustrengjasviðs og Stephan Metzdorf, aðstoðarframkvæmdastjóri landháspennustrengjasviðs, undirrita samkomulag um kaup á jarðstrengjum
Miðvikudagur 3. desember 2014 kl. 12:37

Samið um jarðstreng frá Fitjum til Helguvíkur

– verður lagður næsta sumar

Landsnet hefur samið við þýska fyrirtækið Nexans um kaup á jarðstreng sem lagður verður milli Njarðvíkur og Helguvíkur og tengir kísilver United Silicon við raforkuflutningskerfið. Samkomulagið, sem hljóðar upp á tæplega 1,3 milljónir evra, var undirritað af aðstoðarforstjóra Landsnets og fulltrúum Nexans í dag.

Landsnet hefur gert samning við United Silicon um flutning raforku til kísilvers fyrirtækisins sem áformað er að reisa í Helguvík og er stefnt að því að tengingin verði komin í gagnið fyrir 1. febrúar 2016.

„Þessi samningur við Nexans er mjög hagstæður fyrir okkur og allt kapp verður nú lagt á að hraða framkvæmdum. Undirbúningur að byggingu nýs tengivirkis sem rís við hlið kísilversins við Stakksbraut í Helguvík er þegar hafinn og nú hefst vinna við undirbúning strenglagningarinnar,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets. Hann segir umræddar framkvæmdir mæta flutningsþörfum United Silicon á raforku en sú mikla uppbygging sem nú eigi sér stað á Reykjanesi, s.s. með uppbyggingu kísilvera, netþjónabúa og í líftækniiðnaði, kalli enn frekar á að fyrirhuguðum framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 verði hraðað.
 
Jarðstrengssamkomulagið við Nexans hljóðar upp á tæplega 1,3 milljónir evra og felur í sér kaup á um 9 km löngum 132 kílóvolta (kV) jarðstreng sem lagður verður milli tengivirkja Landsnets á Fitjum og í Helguvík. Strengurinn er með 1.600 mm2 heilum álkjarna og getur hann flutt um það bil 160 MW. Hann verður framleiddur í verksmiðju Nexans í Hannover og lagður sumarið 2015. Unnið verður að hönnun og undirbúningi strenglagningarinnar í nánu samráði við þýska fyrirtækið og mun það jafnframt sjá um allar tengingar.

Jarðstrengurinn mun liggja um land Reykjanesbæjar, Garðs og Keflavíkurflugvallar og er hann á aðalskipulagi sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir fleiri jarðstrengjum þar í framtíðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024