Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sami forstjóri, sömu starfsmenn og sama húsnæði - engir hagsmunaárekstrar
Miðvikudagur 18. ágúst 2010 kl. 16:38

Sami forstjóri, sömu starfsmenn og sama húsnæði - engir hagsmunaárekstrar


Þrátt fyrir að Hitaveitu Suðurnesja hafi á sínum tíma verið skipt upp í tvö fyrirtæki, HS Orku og HS Veitur, eru bæði fyrirtækin í sama húsnæði, með sama forstjóra og sömu starfsmenn. HS veitur eru eingöngu með stjórnarmenn á launaskrá en enga starfsmenn. Hins vegar er ítarlegur verksamningur á milli HS Veitna og HS Orku, sem nú er komin í einkaeign.

Af um 130 starfsmönnum starfar rúmlega helmingur eingöngu að verkefnum fyrir HS Veitur hf, tæplega 25% eingöngu að verkefnum fyrir HS Orku hf og síðan tæplega 25% að verkefnum sem snúa að fyrirtækjunum sameiginlega.
Þar er aðallega um að ræða þjónustuborð, upplýsingakerfi, bókhald, innheimtu, innkaupamál, starfsmannastjórnun, öryggismál og svo yfirstjórn.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Júlíusar Jónssonar, forstjóra beggja fyrirtækjanna, við formlegri fyrirspurn sem birt er á heimasíðu HS Veitna. Júlíus segir að ef ekki væri fyrir þetta fyrirkomulag myndi kostnaður nær tvöfaldast sem yrði væntanlega ekki borin af öðrum en viðskiptavinum fyrirtækjanna.

Haraldur Hallgrímsson og Jón Þórisson sendu formlega fyrirspurn til til HS veitna þar sem m.a. er spurt um starfsmannamál fyrirtækjanna, húsnæðismál, innbyrðis viðskipti félaganna og hvernig tryggt sé að ekki komi til hagsmunaárekstra í viðskiptum HS Orku og HS Veitna, ekki síst þegar sami einstaklingurinn gegni forstjórastöðu í þeim báðum.

Júlíus segir í svari sínu samninga fyrirtækjanna ítarlega og nákvæma. Því sé auðvelt fyrir eftirlitsaðila að rekja hvort rétt sé að farið. Sama gildi um verktakasamninginn, þar fari endurskoðendur nákvæmlega yfir framkvæmd samninganna og síðan staðfesti stjórnir beggja fyrirtækjanna reikninga félaganna, en stjórnirnar séu algjörlega aðskildar. Júlíus segir ennfremur að eðli rekstrar HS Veitna hf sé  með þeim hætti að trúnaðarupplýsingar og viðskiptaleyndarmál, sem gætu gagnast HS Orku hf, séu afskaplega takmörkuð ef nokkur.

Fyrirspurnina og svar Júlíusar Jónssonar í heild sinni má lesa á vefsíðu HS Veitna, hér



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024