Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samherji vill starfrækja laxeldi í álversbyggingum í Helguvík
Séð yfir byggingar Norðuráls í Helguvík. VF-mynd/hilmarbragi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 14. október 2020 kl. 10:08

Samherji vill starfrækja laxeldi í álversbyggingum í Helguvík

Samherji hefur í hyggju að starfrækja fiskeldi í byggingum Norðuráls í Helguvík samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Samherji vill nýta byggingarnar sem áttu að hýsa álver til laxeldis í landi en nýlega greindi VF frá því að Norðurál hafi óskað eftir því við Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ um að gera breytingar á samningum sem gerðir voru við sveitarfélögin á sínum tíma þegar starfrækja átti álver í Helguvík. Meðal annars þarf að breyta lóðaleigusamningum en ríkið á lóðina sem byggingarnar standa á en Reykjaneshöfn er með leigusamning um lóðina sem síðan var framleigð til Norðuráls.

Samherji er með öfluga starfsemi í fiskeldi í Grindavík og í Vogum á Vantsleysuströnd og rekur þar tvær bleikjueldisstöðvar. Þá keypti fyrirtækið nýlegt fiskvinnsluhús í Sandgerði þar sem er slátrun fer fram og pökkun í neytendaumbúðir. Samherji er einn stærsti landeldisframleiðandi í heiminum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reykjanesbær og Sveitarfélagið Garður, nú Suðurnesjabær, gerðu með sér samninga á sínum tíma í tengslum við uppbyggingu Norðuráls í Helguvík en fyrirhugað álver var reist á bæjarfélagamörkum sveitarfélagana. Kerskálarnir risu í landi Garðs en hafnarmannvirki eru í landi Reykjanesbæjar. Framkvæmdir við álverið hófust með fyrstu skóflustungunni föstudaginn 6. júní 2008 og bygging kerskála hófst í árslok það ár. Gert var ráð fyrir að fyrsta áfanga álversins yrði lokið árið 2010, fyrir áratug síðan. Heildarkostnaður við fyrsta áfanga átti að vera 70–80 milljarðar króna á verðlagi þess tíma. Norðurál Helguvík ehf. átti svo samkvæmt samningum að byrja að greiða sveitarfélögunum gjöld tengd uppbyggingunni ári eftir að verksmiðjan hæfi starfsemi. Þessi gjöld hafa enn ekki skilað sér í sveitarsjóðina, enda starfsemi álversins ekki hafin og ljóst að hún verður ekki að veruleika.