Samherji hf. selur fiskimjölsverksmiðjuna í Grindavík
Samherji hf. hefur selt fiskimjölsverksmiðju sína í Grindavík til Síldarvinnslunnar hf., en sem kunnugt er hefur verksmiðjan ekki verið starfrækt frá því í byrjun febrúar sl. eftir að mikill eldur kom upp í verksmiðjunni.
Samherji hefur um langt árabil verið með rekstur í Grindavík. Fyrir nokkrum árum var ráðist í endurbætur á verksmiðjunni, bæði mannvirkjum og tækjabúnaði, og lauk þeim endurbótum í fyrra.
„Frá því að verksmiðjan í Grindavík brann höfum við verið að velta fyrir okkur framtíð þessa rekstrar. Eftir að hafa skoðað málið vandlega höfum við ákveðið að selja Síldarvinnslunni verksmiðjuna. Samherji er stór hluthafi í Síldarvinnslunni og tengist því rekstrinum með þeim hætti og mun áfram verða með hrognafrystingu í Grindavík,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Frágangi á brunatjóninu er ekki að fullu lokið en gera má ráð fyrir að hagnaður vegna sölunnar verði a.m.k. 400 milljónir króna. Á hinn bóginn munu rekstrartekjur og framlegð félagsins dragast eitthvað saman vegna minni umsvifa og því er erfitt að segja hvaða áhrif salan hefur á rekstur Samherja þegar til lengri tíma er litið.
Mynd: Frá brunanum í Grindavík í vetur.