Samgönguráðherra vongóður um að flýta framkvæmdum við Hafnarfjörð
Stopp-hópurinn fundaði með Vegagerðinni og bíður eftir fundi með samgönguráðherra
„Náist farsæl lending verður hægt að flýta og ljúka framkvæmdum við Reykjanesbrautina frá gatnamótum við Krýsuvík að Hvassahrauni á fyrsta tímabili samgönguáætlunnar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra í stuttum pistli á Facebook í dag. Í morgun funduðu fulltrúar frá Stopp-hópnum á Suðurnesjum með Vegagerðinni.
Ráðherra segir að í hans störfum sem samgönguráðherra hafi hann sett umferðaröryggi í forgang þegar kemur að uppbyggingu í samgöngum. „Undanfarið hef ég átt fundi og samtöl við fulltrúa Vegagerðarinnar, Hafnafjarðabæjar og álversins í Straumsvík. Nýjar forsendur á útfærslu á tvöföldun Reykjanesbrautar eru komnar fram í nýútkominni frumdragaskýrslu Vegagerðarinnar og Mannvits. Þar kemur fram að hagkvæmast er að breikka Reykjanesbrautina, frá gatnamótum við Krýsuvík að Hvassahrauni, í núverandi vegstæði og einfalda fyrri útfærslur sem kallar jafnframt á breytt aðalskipulag. Ég mun beita mér fyrir því að aðilar vinni málið út frá þeim forsendum sem nú liggja fyrir.“
Í færslu ráðherrans er þó hvergi minnst á vegakaflann frá Fitjum að flugstöð sem lokaðist í óveðrinu fyrir nokkrum dögum.
Fundurinn Stopp-hópsins með forstjóra Vegagerðarinnar fór vel fram að því er kemur fram í færslu hópsins á Facebook. Á fundinum var einnig deildarstjóri framkvæmdasviðs Hafnarfjarðar og framkvæmdastjóri Tæknisviðs Vegagerðarinnar.
„Bæjarráð Hafnarfjarðar mun funda í fyrramálið um þetta mál og Vegagerð og Hafnarfjarðarbær eiga fund á föstudaginn, og sögðu þau að þau sæju ekkert því til fyrirstöðu að málið gæti leysts þá, það er að þau komist að samkomulagi um hvar Reykjanesbrautin skal liggja.
Við lögðum til að Vegagerðin færi strax í að aðskilja aksturstefnur og breikka axlir á meðan beðið er eftir tvöföldun eins og hafði verið lagt fjármagn til fyrir ári síðan af því þetta ferli allt mun auðvitað taka minnst 2-3 ár, það er auðvitað óábyrgt og galið að hafa brautina óbreytta þann tíma.
Næsta mál er að óskað hefur verið eftir fundi með Samgönguráðherra en nokkur mál sem komu upp á þessum fundi með Vegagerðinni þarfnast nánari útskýringa af hendi ráðherrans.
Okkur finnst þetta mjög alvarlegt en þó það einfalt að það eigi að vera hægt að hefjast handa í janúar síðasta lagi febrúar næstkomandi,“ segir í færslu hópsins.
Stopp-hópurinn eftir fundinn með Vegagerðinni í morgun.