Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mánudagur 21. ágúst 2000 kl. 10:53

Samgöngumál fyrir ferðafólk í ólestri

Tjaldstæðið Stekkur í Njarðvík var opnað 23. maí 1993 og var það liður í að efla ferðmannaiðnað á Suðurnesjum. Síðan hefur mikið vant runnið til sjávar. Fjöldi þeirra sem heimsækja Suðurnesin, hefur aukist jafnt og þétt á milli ára og þjónusta við ferðamenn sömuleiðis. Tjaldsvæðið er í eigu Reykjanesbæjar en Erlingur Hannesson hefur verið rekstraraðili þess frá upphafi. Silja Dögg Gunnarsdóttir mælti sér mót við hann á grámyglulegum föstudegi uppá tjaldsvæði og ræddi um þróun ferðamála á svæðinu og hvernig rekstur tjaldsvæðisins hefur gengið í gegnum árin. Mestmegnis Þjóðverjar „Sumarið 1993 vorum við með 2000 skráðar gistinætur og sumarið 1996 3600 nætur, sem var toppurinn. Síðan kom kreppa í Þýskalandi sem hafði mikil áhrif á okkur því um 70% gesta okkar eru Þjóðverjar. Árið 1997 voru við því aðeins með 1600 gistinætur og undanfarin sumur hafa þær verið á milli 1600-1800. Mér sýnist allt útlit vera fyrir að sumarið í ár verði mjög gott“, segir Elli bjartsýnn. Aukning á bænda- og hótelgistingu Hvers vegna gistir svo hátt hlutfall Þjóðverja á tjaldstæðum? „Íslandsferðir eru markaðssettar öðruvísi í Þýskalandi heldur en t.d. í Bandaríkjunum. Það er mín persónulega skoðun að Ferðamálaráð Íslands hafi einbeitt sér að dýrari ferðamannaþjónustu að undanförnu, þ.e. að fá hingað fólki sem skilur meira eftir sig en bakpokaferðalangar. Það er orðið meira um að erlendir ferðamenn gisti á hótelum þegar þeir ferðast um landið, og nýti sér bænda-gistingar, sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur um allt land á síðustu misserum“, segir Elli. Staldra stutt við Að sögn Ella er tjaldsvæðið í Njarðvík eitt það besta á landinu og öll aðstaða til fyrirmyndar. „Við erum á svokallaðri endastöð vegna nálægðar við flugvöllinn, þ.e. fólk kemur hingað seinnipartinn og fer snemma á morgnana. Bæjarbúar verða því lítið varir við þá ferðamenn sem koma hingað“, segir Elli og vill nú ekki meina að ástæða þess að ferðamenn staldri stutt við sé vegna þess að lítið sé um að vera fyrir þá hér í nágrenninu. „Reykjanes er mjög athyglisverður staður og hér er margt hægt að skoða, fyrir þá sem nenna að kynna sér það, en ötullega hefur verið unnið að því að kynna fólki hvað er í boði. Ég tel því að framboð og aðgangur að upplýsingum sé í góðu lagi“, segir Elli. Lélegar samgöngur við flugstöðina Elli er hins vegar ekki jafn ánægður með samgöngurnar á milli Reykjanesbæjar og flugstöðvarinnar, eða á heldur að kalla það samgönguleysi? „Já, samgöngumálin eru í lamasessu og á því sviði erum við komin aftur í fornöld. Einhver þarf að borga brúsann og SBK eru ekki lengur með þessar ferðir á áætlun, eftir að þeir hættu með starfsmannaaksturinn fyrir Flugleiði. Þeir segja að aksturinn hafa verið rekinn með tapi. Maður hefði nú haldið að það væri hagur bæjarfélagsins að samgöngur við flugvöllinn væru í góðu lagi“, segir Elli og veltir um leið fyrir sér hvers vegna bæjarfélagið leggi ekki sitt af mörkum til að bæta þetta ástand. Fara frekar til Reykjavíkur „Leigubílstjórar hafa reyndar sinnt þessum akstri í sumar en þeir eru oft harðir á að koma fólkinu bara beint til Reykjavíkur“, segir Elli og sú spurning kemur ósjálfrátt upp í hugann hvort bæjarfélagið sé með þessu samgönguleysi ekki að missa af góðum viðskiptum og tefja verulega fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Að sögn Ella hefur ferðamálafulltrúinn, Johan D. Jónsson, lagt sitt af mörkum til að efla þjónustu við ferðamenn en einn og sér geti hann ekki kippt þessum samgöngumálum í liðinn. „Johan hefur verið að vinna mjög gott starf fyrir svæðið og hefur ekki legið á liði sínu að neinu leyti. Þetta mál er bara eitthvað sem hann ræður ekki einn við“, segir Elli og skömmu síðar er hann rokinn út því hann er maður sem situr sjaldnast lengi kyrr.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024