Samfylking og Framsókn í eina sæng í Reykjanesbæ
Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin í Reykjanesbæ hafa ákveðið að bjóða fram sameiginlegan lista í sveitarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ í maí 2006, með þátttöku og aðkomu óflokksbundinna. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Kaffitári í dag.
Í máli formanna félaganna, frændanna Eysteins Jónssonar og Eyjólfssonar kom fram að þessi hugmynd kom fyrst til umræðu hjá þeim haustið 2004. Kjartan Már Kjartansson, bæjarfulltrúi Framsóknar sagði að menn væru bjartsýnir eftir þennan samruna, leiðir flokkanna lægju vel saman og ljóst væri að stefnan væri sú að koma núverandi meirihluta frá völdum í Reykjanesbæ. Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar sagði að meðal helstu stefnumála væri mannauðurinn. Nú yrði stefnan að huga að innviðunum eftir góða tiltekt utanhúss undanfarin ár í bæjarfélaginu.
Þar nefndi hann m.a. málefni aldraðra sem Guðbrandur sagði að taka þyrfti á. Aðspurðir um bæjarstjóraefni sagði Kjartan að það yrði greint frá því á sama tíma og listinn yrði opninberaður í lok janúar eða byrjun febrúar.
Á fundinum var lögð fram framtíðarsýn framboðsins:
,,Reykjanesbær verði eftirsóknarverður valkostur fyrir fjölskyldur, einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Hann verði fjölskylduvænt, framsækið, nútímalegt og vel rekið sveitarfélag. Áhersla verði lögð á lýðræðisleg vinnubrögð þar sem íbúar og atvinnulíf hafi tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og lifi í sátt við sjálfa sig og umhverfi sitt. Í sveitarfélaginu verði öll þjónusta á meðal þess sem best gerist á Íslandi. Þar verði m.a. öflugt atvinnulíf, frábærir grunn- og leikskólar og fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta og umönnun, fyrir unga sem aldna. Bæjarbúum gefist kostur á heilbrigðu vinnuumhverfi, vel launuðum störfum, sveigjanlegum vinnutíma og tækifærum til símenntunar og þroska. Skipulag og umhverfi sveitarfélagsins, gatnakerfi og opin svæði taki mið af þörfum íbúa, fyrirtækja og umhverfisins í heild. Mannlíf í Reykjanesbæ verði með því besta sem þekkist, þar sem blómlegt íþrótta- og menningarstarf setji mark sitt á bæjarbraginn og aðstaða fyrir íþrótta-, tómstunda- og menningarstarfsemi verði eins og best verður á kosið”.
Helstu stefnumál
Flokkarnir eru sammála um að leggja áherslu á að byggja upp innviði og mannauð sveitarfélagsins. Sérstök áhersla verður lögð á uppbyggingu atvinnulífs, bætt kjör barnafjölskyldna, lýðræðisleg vinnubrögð, að tekinn verði upp gjaldfrjáls leikskóli í áföngum og unnið að bættum hag eldri borgara. Flokkarnir eru sammála um að tryggja þurfi ábyrga og vandaða fjármálastjórn sveitarfélagsins og að leita þurfi leiða til þess að lækka skuldir. Flokkarnir eru þó sammála um að ekki komi til greina að selja hlut Reykjanesbæjar í Hitaveitu Suðurnesja. Unnið verði áfram að uppbyggingu grunn-, leik- og tónlistarskóla sveitarfélagsins og aðstaða til íþrótta- og menningarstarfsemi bætt enn frekar.
Vinna við gerð stefnuskrár hefst á næstu dögum og verður áhersla lögð á lýðræðislega þátttöku bæjarbúa í þeirri vinnu. Unnið verður fyrir opnum tjöldum og íbúum gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á sérstökum fundum sem auglýstir verða nánar. Auk þess er ætlunin að leita eftir samráði við fjölmörg félagasamtök og hagsmunahópa.