Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samfylking í eina sæng í Sandgerði
Mánudagur 11. janúar 2010 kl. 01:30

Samfylking í eina sæng í Sandgerði

Útlit er fyrir að samfylkingarfólk bjóði fram saman í Sandgerði í vor. Það var á tveimur listum við síðustu kosningar. Stefnt er að prófkjöri í næsta mánuði. Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samfylkingin bauð í fyrsta skipti fram undir eigin listabókstaf í Sandgerði í síðustu sveitarstjórnakosningum. Áður átti Samfylkingarfélagið og þar áður Alþýðuflokkurinn aðild að K-lista óháðra borgara.

K-listinn bauð eigi að síður fram og hefur verið í meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn um stjórnun bæjarfélagsins en fulltrúar S-listans verið í minnihluta.

Óskar Gunnarsson, oddviti K-listans, er forseti bæjarstjórnar og Sigurður Valur Ásbjarnarson, oddviti sjálfstæðismanna, er bæjarstjóri. Óskar hefur lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér áfram.

Þreifingar hafa verið með fólkinu sem stendur að K-lista og S-lista um sameiginlegt framboð í vor. Bæjarmálaráð S-listans samþykkti á fundi sínum í gær tillögu um að fara fram með K-listanum. Ólafur Þór Ólafsson, oddviti S-listans, segir að samþykkt hafi verið að efna til prófkjörs í næsta mánuði og greiða þá jafnframt atkvæði um það hvorn listabókstafinn ætti að nota. Ólafur tekur það fram að þessi tillaga eigi eftir að fara fyrir aðalfund félagsins.

Ólafur Þór telur meiri líkur en minni að af þessu verði. „Þetta verður þá listi sem stefnir að hreinum meirihluta,“ segir Ólafur Þór við mbl.is