SAMFÉLAGSÞJÓNUSTA Í STAÐ FANGELSISVISTAR
Reykjanesbær og Fangelsismálastofnun ríkisins gerðu þann 3. febrúar 1999 með sér samning þess efnis að ungur varnarliðsmaður taki út refsingu í formi ólaunaðrar samfélagsþjónustu í stað fangelsisvistar í kjölfar dóms vegna umferðarlagabrota.Margrét Sæmundsdóttur, deildarsérfræðingur hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, sagði í samtali við Víkurfréttir, lög um samfélagsþjónustu hafa verið staðfest 1994 og að á árinu 1995 hafi verið gengið frá samningum við bæjarfélög og hreppi í öllum kjördæmum landsins. Margrét sagði þá sem dæmdir eru til a 6 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar eða minna geta sótt um samfélagsþjónustu, ekki síðar en 1/2 mánuði áður en afplánun á að hefjast. Fangelsismálastofnun metur síðan hverja umsókn og tekur síðan ákvörðun hvort eintaklingurinn teldist hæfur til ólaunaðrar samfélagsþjónustu. Margrét sagði að 1997 hefðu 46 einstaklingar verið samþykktir af stofnuninni en 84 á síðasta ári. Hún kvað Fangelsismálastofnun setja umsækjendum skilyrði lík almennum skilorðsskilmálum og gæti afturkallað samfélagsþjónustuheimildir og ákvarðað afplánun eftirstöðva dæmdra refsinga brjóti einstaklingar sett skilyrði Fangelsismálastofnunar. Skv. upplýsingum Margrétar rufu 14 aðilar skilmála samfélagsþjónustunnar á árunum 1997 og 1998. Þórir Maronsson, yfirlögregluþjónn, segir örfáa einstaklinga hafa tekið út refsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu í stað refsivistar í umdæmi lögreglunnar í Keflavík. Hann segir lögregluna hafa eftirlitshlutverki að gegna í þessum tilvikum. Hennar sé að tryggja að allir aðilar samningsins uppfylli sett skilyrði og sjá til þess að Fangelsismálastofnun fái vitneskju um þróun mála.